Áströlsku útvarpsmennirnir Mel Greig og Michael Christian sem þóttust vera Elísabet Englandsdrottning og Karl Bretaprins í síma hafa verið send í leyfi frá störfum um óákveðinn tíma.
Hrekkurinn beindist að starfsfólki sjúkrahúss Játvarðar konungs þar sem Katrín, hertogaynja af Cambridge, dvaldist vegna meðgönguógleði. Hjúkrunarfræðingurinn, sem varð fyrir hrekknum, tók eigið líf síðastliðna nótt.
„Southern Cross Austereo og 2Day FM harma þær sorglegu fréttir sem hafa borist af dauða hjúkrunarfræðingsins Jacinthu Saldanha. Við vottum fjölskyldu hennar okkar dýpstu samúð,“ segir í yfirlýsingu frá útvarpsstöðinni þar sem fólkið starfar.
Þar segir að þau Greig og Christian séu miður sín vegna láts konunnar.
„Við og þau höfum ákveðið að þau muni ekki snúa til starfa að sinni vegna tillitssemi við þennan harmleik.“
Mörg hundruð skilaboð voru skrifuð á facebooksíðu útvarpsstöðvarinnar þar sem hvatt var til þess að fólkinu yrði sagt upp störfum.
Greig og Christian báðust afsökunar á grikknum eftir að hann olli uppnámi í Bretlandi, en útvarpsstöðin gerði sér mat úr fjaðrafokinu og kallaði símaatið „stærsta konunglega prakkarastrik sögunnar“, áður en fregnir bárust af láti hjúkrunarfræðingsins.