Söngvarinn Justin Bieber biður fyrir ljósmyndaranum, sem lét lífið á nýársdag við að elta hann og fer fram á harðari lagasetningu gagnvart paparazzi-ljósmyndurum.
„Ég var ekki á staðnum og tengist þessu máli ekki beint,“ segir í yfirlýsingu sem Bieber sendi frá sér í dag. „En hugsanir mínar og bænir eru hjá fjölskyldu hins látna.“
„Vonandi verður þetta atvik til þess að lög verða sett og önnur nauðsynleg skref stigin til þess að vernda líf og öryggi frægðarmenna, lögreglumanna, saklausra vegfarenda og ljósmyndaranna sjálfra,“ segir í yfirlýsingu Biebers.
Sportbíll í eigu Biebers hafði verið stöðvaður fyrir of hraðan akstur og hugðist ljósmyndarinn taka myndir af því þegar ekið var á hann af aðvífandi bíl. Bieber var ekki undir stýri á bíl sínum og því ekki á staðnum.