Meira en lítið ástfanginn af Íslandi

Roland með vinkonu sinni Elínu Öglu Briem sem var skólastjóri …
Roland með vinkonu sinni Elínu Öglu Briem sem var skólastjóri Finnbogastaðaskóla þegar hann kom þangað fyrst í heimsókn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hann hefur komið ellefu sinnum til Íslands frá því hann kom hingað fyrst fyrir aðeins fjórum árum. Helst vill hann vera norður á Ströndum í fámenninu. Hann segir erfitt að koma í orð hvað það er sem heillar, en myndirnar hans tjá það og þær ætlar hann að sýna í sumar í síldarverksmiðjunni í Djúpavík.

Fólk trúir mér ekki þegar ég segi að ég sé ekki að eltast við konu á Íslandi, það skilur ekki hvers vegna ég fer í öllum mínum fríum hingað til þessarar köldu eyju lengst í norðri,“ segir Roland A. Mores, kennari frá Sviss, sem er svo heillaður af Íslandi að hann hefur komið hingað ellefu sinnum undanfarin fjögur ár. „Helst af öllu vil ég vera á Ströndum, þar líður mér vel og þar hef ég eignast góða vini. Ég ætlaði að verja áramótunum í Djúpavík í Reykjarfirði en því miður var alveg ófært. Allt fór þetta þó vel því hún Eva Sigurbjörnsdóttir, vinkona mín og hótelstjóri í Djúpavík, kom suður til Reykjavíkur um áramótin til að taka við Fálkaorðu, og hún bauð mér til áramótaveislu með sínu fólki, sem var mjög gaman.“

Trúði vart því sem hann sá

Roland segir það hafa verið algera tilviljun að hann kom til Íslands fyrsta sinni fyrir fjórum árum. „Ég fór á ferðaskrifstofu til að kaupa mér farseðil til New York, sem er ein af mínum uppáhaldsborgum, en þá vildi svo til að uppselt var í flugið. Ég spurði hvort flug væri til Skotlands, Írlands eða jafnvel Íslands, því þangað hefði mig lengi langað og ástæðan var tónlistarkonan Björk. Laust var í flug til Íslands og ég keypti ferð sem innihélt tíu daga hringferð á bíl um landið. Þetta var að sumarlagi og ég varð algerlega heillaður. Ég var alltaf að stoppa til að fara út úr bílnum, ég gat næstum ekki trúað því sem ég sá. Ég komst ekki á Vestfirðina í þessari fyrstu ferð en ég var staðráðinn í að fara þangað í þeirri næstu, sem ég og gerði, sex vikum síðar. Þá keyrði ég beint til Hótel Djúpavíkur, sem ég hafði lesið um í erlendum blöðum, og þar dvaldi ég í góðu yfirlæti hjá staðarhöldurum, Evu og Ása. Ég ferðaðist um Vestfirði og varð ástfanginn af þessu landi.“

Vill vinna með höndunum

Roland segir að hann hafi ævinlega viljað fara til Parísar og annarra stórborga til að týnast í mannmergð, og því hafi það komið honum á óvart hversu fámennið á Ströndum og nálægðin við fólkið höfðaði til hans. „Ég hef ekki farið til Parísar, New York eða annarra uppáhaldsborga síðan ég kynntist Íslandi. Ef ég heillast af stað, þá er ekki nóg fyrir mig að koma þangað einu sinni, ég verð að koma oft og kynnast honum betur,“ segir Roland og bætir við að hann hafi heimsótt Finnbogastaðaskóla þar sem Elín Agla Briem var þá skólastjóri og nemendur voru aðeins þrír. „Mér sem kennara fannst þetta afar áhugavert, í skólanum þar sem ég kenni eru 250 nemendur. Mér fannst til dæmis ógleymanlegt hvað börnin voru spennt að fá banana og epli í ávaxtastundinni. Á Ströndum geta börn ekki hlaupið út í sjoppu og fengið hvað sem er, þau eru sem betur fer laus við áreiti neyslubrjálæðisins sem sífellt versnar í hinum vestræna heimi. Sjálfur er ég heillaður af því að fólk viti hvað það borðar, að maturinn komi beint frá býli án viðbættra efna,“ segir Roland sem fer á hverju hausti til Ítalíu og hjálpar þar vinafjölskyldu sinni við uppskeruna. „Þau eru með 200 ólífutré og í nóvember ár hvert þarf að handtína ólívur af öllum trjánum og einnig þarf að tína berin af vínviðnum. Þau nota engar vélar og við hjálpumst öll að og þetta er afar gefandi tími. Það á vel við mig að vinna með höndunum. Ég reyndi líka að gera gagn á Djúpavík þegar ég var þar, skipti um glugga þar sem þess þurfti og annað slíkt.“

Lærði ljósmyndun

Roland segir ekki auðvelt að koma því í orð hvað það sé sem heilli hann við Ísland. „Vissulega er hér mikil náttúrufegurð, en það er líka eitthvað annað og meira, til dæmis fólkið. Ég kann afar vel við Íslendinga, þeir eru einlægir og hlýir. Nú finnst mér ég vera orðinn hálfgerður Íslendingur og gaf ég mér því til gamans íslenska nafnið Róland Ásgrímur Móresson. Birtan og litirnir á Íslandi eru líka afar heillandi fyrir ljósmyndara,“ segir Roland sem er áhugaljósmyndari og hefur tekið ótal myndir hér á landi. „Ég ætlaði reyndar að verða ljósmyndari á mínum yngri árum og lærði það í eitt ár. En svo kynntist ég konu og við eignuðumst dreng og til að sjá fyrir okkur var kennarastarfið heppilegra. Sonur minn er orðinn 37 ára og ég eignaðist mitt fyrsta barnabarn núna þann frábæra dag 12.12. 12. Ég tek myndir fyrst og fremst fyrir sjálfan mig, ég vil fanga birtuna og stemninguna. Ég er heillaður af Íslandi á sama hátt og ég heillaðist eitt sinn af yfirgefinni stórri byggingu á Ítalíu sem heitir Hotel Angst. Ég fór þangað sjö sinnum, til að kynnast því betur, reyna að finna eitthvað út um sögu þess og taka myndir. Fegurðin í yfirgefnum byggingum í niðurníðslu getur verið afar hrífandi. Ég get ekki tjáð þessa fegurð í orðum, en ég reyni það með myndunum mínum,“ segir Roland sem mun halda ljósmyndasýningu í Síldaververksmiðjunni í Djúpavík í sumar.

Sýning í síldarverksmiðju

Eva hótelstýra í Djúpavík hefur lengi suðað í Roland um að hann setji upp ljósmyndasýningu í gömlu síldarverksmiðjunni þar. Nú hefur hann loks sagt já og vinnur hann að sýningunni sem verður í sumar.

Flickr-myndasíða Rolands: a.more.s

Þessa mynd tók Roland á ferð við Mývatn.
Þessa mynd tók Roland á ferð við Mývatn. mbl.is
Roland er heillaður af birtunni, litunum, fólkinu og náttúrunni á …
Roland er heillaður af birtunni, litunum, fólkinu og náttúrunni á Íslandi. mbl.is
Þórey og Ásta í Finnbogastaðaskóla.
Þórey og Ásta í Finnbogastaðaskóla. Picasa
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir