Þrátt fyrir velgengni kvikmynda þar sem samkynhneigðar persónur eru í forgrunni, t.d. Brokeback Mountain, reyndist það leikstjóranum Steven Soderbergh þrautin þyngri að fá kvikmyndaverin í Hollywood til að framleiða bíómynd um ævi píanóleikarans Liberaces.
„Enginn vildi gera þessa mynd. Við fórum til allra í bænum. Þeir sögðu allir að hún væri of „samkynhneigð“,“ sagði Soderberg í spjalli við The New York Post.
Leikstjórinn sagði kvikmyndaverin ekki hafa vitað hvernig þau ættu að markaðsetja myndina og þau hafi verið hrædd við að taka hana á sína arma.
Aðalleikarar myndarinnar, sem ber titilinn Behind the Candlebra, eru stórstjörnurnar Michael Douglas, sem fer með hlutverk Liberaces, og Matt Damon, sem leikur elskhuga hins litríka skemmtikrafts.
Damon segir samband Liberaces og elskhugans, Scotts Thorsons, hafa verið eins og hvert annað hjónaband.
„Þessir menn voru afar ástfangnir og í alvörusambandi; hjónabandi ... löngu áður en hjónabönd samkynhneigðra komu til sögunnar ... Handritið er fallegt og aðvelt að tengja við það. Og samtöl þeirra; þegar þeir eru að klæða sig í eða úr eða eru að rífast eða undirbúa sig fyrir háttinn? Eins og í öllum hjónaböndum.“