Danska sjónvarpsþáttaröðin Borgen nýtur víðar vinsælda en á Norðurlöndum því hún hefur hvað eftir annað verið valin meðal bestu sjónvarpsþátta ársins 2012 bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hinn exótíski heimur skandinavísks velferðarkerfis þar sem konur fara með völd virðist höfða til fólks og talað er um „skandinavíuveiki“ sem hafi hafist með þríleik Stiegs Larssons um Lisbeth Salander.
Fram kemur á vef Politiken að þættirnir virðist náð stöðu sem ákveðið menningarlegt fyrirbrigði meðal millistéttarsjónvarpsáhorfenda í enskumælandi löndum.
„Ekki aðeins sjá áhorfendur sjálfa sig í þáttunum, þeir gefa fólki líka tækifæri til að ferðast fram í tímann fyrir framan sjónvarpsskjáinn, inn í nútímalegt samfélag þar sem konur geta haft völd, karlar líta eftir börnum og þar sem fóstureyðingar eru afgreiddar sem hliðarsaga án þess að allur þátturinn sé lagður undir samviskubit persónunnar sem gengst undir hana,“ segir í umfjöllun Politiken í dag.
Eðlilegar konur snúa á kvenfyrirlitningu
Þessi uppskrift virðist gera það gott ef marka má erlenda umfjöllun um þættina þar sem stór lýsingarorð eru notuð. Bandaríska vefsíðan Daily Beast útnefnir Borgen sem dæmi um bestu dramaþætti ársins, á undan þáttum eins og Mad Men og Downton Abbey. Um aðalleikkonurnar Sidse Babet Kundsen og Birgitte Hjort Sørensen segir blaðamaðurinn:
„Þessar tvær leikkonur sýna einn besta leik í sjónvarpi síðasta áratuginn með því að afhjúpa, í stað þess að forðast, raunsæja galla í karakterunum og sigrast þannig á stofnanavæddri kvenfyrirlitningu hvor á sínu sviði.“
Nútímaleg valdabarátta konu
Breska dagblaðið Telegraph útnefndir Borgen einnig bestu dramasjónvarpsþætti ársins 2012, á undan Homeland, Breaking Bad og Game of Thrones. Í bandaríska tímaritinu n+1 segir að Borgen sé „mikilvægasta þáttaröðin í evrópsku sjónvarpi“ og „áhrifamesti sjónvarpssmellur í áraraðir“. Blaðamaður New York Times, Alessandra Stanley, segir að Borgen sé „hugsanlega sá sjónvarpsþáttur sem erfiðast er að finna í bandarísku sjónvarpi, en í augnablikinu líka einn sá besti“.
Newsweek uppfræðir lesendur sína sömuleiðis á því að Borgen sé „besta sjónvarpsþáttaröð sem þú hefur aldrei séð“. Þar segir að Borgen takist það sem hinni nýju bandarísku þáttaröð The Newsroom takist ekki: Að fylla í fótspor The West Wing sem gott pólitískt drama. Blaðamaður Newsweek segir að á meðan The Newsroom sé fast í fortíðinni með gamaldags karlrembum í aðalhlutverkum sé Borgen nútímalegt drama um valdabaráttu konu.
Í London er Borgen á allra vörum, að sögn fréttaritara New York times, og ráðherrarnir David Cameron og Nick Clegg báðir sagðir forfallnir aðdáendur. Og það er víðar en í hinum enskumælandi heimi sem Danmörk er í tísku, því franska dagblaðið Le Monde útnefndi danskt sjónvarpsefni sem það „heitasta“ í Frakklandi um þessar mundir. Stjarna Birgittu Nyborg fær einnig að skína á sjónvarpsskjám í Suður-Kóreu, Hollandi, Grikklandi og Brasilíu.
Valdamiklar fyrirmyndir á reiðhjólum
Í grein Politiken er leitað til álitsgjafa til að útskýra þessar vinsældir. Patrick Kingsley, blaðamaður Guardian, segir helstu ástæðuna einfaldlega þá að þættirnir séu vandaðir, en auk þess komi þeir úr framandi umhverfi enda séu Bretar flestir vanir að horfa annaðhvort á breskt eða bandarískt sjónvarpsefni.
„Í fyrsta þættinum sér maður Birgitte Nyborg hjóla í þinghúsið. Jesús! Það myndirðu aldrei sjá í London. Og bara það að aðalpersónan sé kona sem fer með svo mikil völd í þróaðri útgáfu af samsteypustjórn, þar sem ekki eru sömu átakastjórnmál og í Bretlandi, það er mjög exótískt.“
Önnur leið til að lifa lífinu
Kingsley segir að Borgen komi róti á hugann hjá Bretum. Þeir þekki sjálfan sig í einkalífsvandræðum persónanna, en þættirnir sýni þeim nýja nálgun á lífið samkvæmt norrænu velferðarkerfi, þar sem öll börn fari á leikskóla og meirihluti kvenna sé virkur á vinnumarkaði. „Það er í tísku að dýrka Danmörku. Við erum illa haldin af Skandinavíuveiki.“
Greinarhöfundur Politiken segir að Danir megi reyndar þakka ákveðnum Svía fyrir þessar miklu vinsældir, þ.e.a.s. Stieg Larsson. Norræna innreiðin hafi hafist með bókum hans, en ráðamenn DR gerðu þó alls ekki ráð fyrir að pólitískt drama eins og Borgen gæti leikið sama leik og glæpaþátturinn Forbrydelsen gerði í kjölfarið, eða svo segir Keld Reinicke, dagskrárstjóri TV 2 Í Danmörku.
„Ef þú hefðir spurt mig fyrir fimm árum hvort þetta gæti gerst þá hefði ég sagt nei. Því öll rök hníga gegn því.“