„Baltasar Kormákur á furðulegan feril að baki.“ Á þessum orðum hefst viðtal sem birtist í bandaríska blaðinu LA Times í gær. Þar segir að leikstjórinn íslenski sé líklega sá eini sem býr við aðstæður í ætt við norðurpólinn en fær engu að síður regluleg verkefni í Hollywood.
Blaðamaður LA Times, Steven Zeitchik, vekur máls á því að kvikmyndin Djúpið veki vaxandi athygli á kvikmyndahátíðum og hafi verið tilnefnd á „stuttlista“ Óskarsverðlaunanna, en á sama tíma sé Baltasar að ljúka tökum á spennumyndinni 2 Guns með Denzel Washington og Mark Wahlberg. Hann spjallar svo við Baltasar um flokk erlendra mynda á Óskarsverðlaununum og um hvort höfði meira til Baltasars að gera kvikmyndir á ensku í Hollywood eða á íslensku.
„Ég vil ennþá gera hvort tveggja,“ segir Baltasar. Hann nefnir sem dæmi að hann hafi í sigtinu að gera kvikmynd eftir Sjálfstæðu fólki og þótt áhugi sé fyrir því að sú mynd verði á ensku telji hann nauðsynlegt að hún verði íslensk. „[Bókin] fjallar um hvernig við urðum til sem þjóð og hún verður að vera á íslensku. En ég vil vinna inni í kerfinu til að breyta því. Ég er með fullt af verkefnum á íslensku sem mig langar að sjá hvort ég geti laumað inn hjá kvikmyndaverunum.“
Þannig vonast Baltasar t.d. til að gera víkingamynd í Hollywood, enda þurfi fjármuni frá stóru kvikmyndaverunum til að geta skapað þá veröld með sannfærandi hætti. Eins segist hann hafa augastað á því að gera kvikmynd um hamfarir á Everest byggða á bókinni „Into Thin Air“. Hann hafi skynjað áhuga hjá leikurum á að taka þátt í því verkefni og sjái fyrir sér að taka megi upp senur sem eigi að gerast á Everest á íslenskum jöklum.
„Það er að verða eitt af þínum aðalsmerkjum, að gera kvikmyndir með eins náttúrulegum hætti og hægt er,“ segir blaðamaður LA Times og rifjar upp að Djúpið sé tekin upp á hafi úti, ekki í vatnstanki eða með tölvubrellum. „Ég verð að fylgja því sem hreyfir við mér. Tölvubrellur hreyfa ekki við mér,“ segir Baltasar.
Fleiri bandarískir fjölmiðlar fjölluðu um Baltasar og Djúpið um helgina, því í bloggi New York Times um komandi Óskarsverðlaun spáir Brooks Barnes því að Djúpið eigi góðar líkur á að verða tilnefnt. Hins vegar séu litlar líkur á að myndin sigri.
Í blogginu, sem ber titilinn „Velkominn til Hollywood Baltasar Kormákur“, segir blaðamaður New York Times að þótt litlar líkur séu á sigri nýti Baltasar sér aðdraganda Óskarsverðlaunanna til að koma sér á framfæri í Hollywood.