Svo gæti farið að næsta fegurðardrottning Ameríku yrði stúlka sem er með einhverfu. Meðal keppenda er einnig stúlka sem ætlar að láta fjarlægja bæði brjóst sín. Keppnin Ungfrú Ameríka fer fram á morgun.
Keppnin er því nokkuð óvenjuleg þetta árið. Ungfrú Montana, Alexis Wineman sem er 18 ára, og ungfrú Washingtonborg, Allyn Rose sem er 24 ára, hafa báðar glímt við heilsufarsvandamál.
Wineman er yngsti keppandinn þetta árið. Er hún var 11 ára var hún m.a. greind með Asperger og hefur talað opinskátt um líf sitt með einhverfu.
„Svo margir gera ráð fyrir því að einhverft fólk sé allt saman eins, að við séum fólk sem getum ekki að fullu verið þátttakendur í samfélaginu,“ segir Wineman. Hún er fyrsti þátttakandinn í Ungfrú Ameríku sem greind hefur verið með einhverfu.
„Ég vil að fólk viti að það er fullt af fólki með einhverfu af ýmsu tagi sem lifir ágætu lífi.“
Rose var sextán ára er móðir hennar lést úr brjóstakrabbameini. Hún hefur ákveðið að láta fjarlægja bæði brjóst sín eftir keppnina, hvort sem hún vinnur hana eða ekki.
„Ég get annaðhvort verið stöðugt á varðbergi allt mitt líf eða tekið málin í eigin hendur,“ segir hún. Hún segir að brjóstnámið auki verulega lífslíkur sínar.
Rose útskrifaðist úr stjórnmálafræði frá Háskólanum í Maryland. Hún er mikil skautamanneskja og var áður í pönkhljómsveit. Amma hennar og frænka létust einnig úr brjóstakrabbameini.
Meðal annarra óvenjulegra keppenda má nefna ungfrú Iowa, Mariuh Cary, sem glímir við Tourette-sjúkdóminn. Þá missti ungfrú Maine, Molly Bouchard, um 23 kíló áður en hún keppti um titilinn í heimaríkinu.
Ekki er úr vegi að nefna svo ungfrú Wyoming, Lexie Madden. Hún hafði það að atvinnu eitt sinn að glíma við svín. Þannig greiddi hún fyrir háskólanám sitt.
Fegurðarsamkeppnir eru umdeildar í Bandaríkjunum og undanfarin ár hefur áhorf á þær í sjónvarpi dalað. Hins vegar er alltaf nóg af stúlkum sem vilja taka þátt, enda eru oft í boði veglegir styrkir til háskólanáms.
Árið 1994 vann Heather Whitestone keppnina Ungfrú Ameríka. Hún er frá Alabama og er heyrnarskert. Hún var fyrsti fatlaði þátttakandinn.
Annar óvenjulegur þátttakandi úr fortíðinni er Rebecca Ann King sem vann árið 1974. Hún var opinberlega hlynnt fóstureyðingum sem var verulega umdeilt á þeim tíma.