Stærsta samband Írlands í blönduðum bardagaíþróttum (MMA), Cage Contender, tilkynnti í gær tilnefningar sínar fyrir bardagaverðlaun ársins 2012. Fjórar tilnefningar eru í hverjum flokki og eru Íslendingar tilnefndir í 5 flokkum af 7, samkvæmt fréttatilkynningu.
Mjölnir frá Íslandi er tilnefnt sem lið ársins, Gunnar Nelson sem bardagamaður ársins (Fighter of the Year) og fyrir besta uppgjafartakið (Submisson of the Year) gegn Alexander Butenko í febrúar.
Árni Ísaksson er tilnefndur fyrir rothögg ársins (Knock Out of the Year) gegn Wayne Murrie í október og einnig sem persónuleiki ársins (Cage Contender Personality of the Year). Úrslitin verða tilkynnt á laugardaginn á Louis Fitzgerald hótelinu í Dublin.