Megan Fox segist hafa ákveðið að losa sig við húðflúr af Marilyn Monroe eftir að hafa lesið sér til um dapra ævi leikkonunnar. Þá talaði Transformers-leikkonan einnig tungum sem barn.
„Ég áttaði mig á því hversu ótrúlega erfitt líf hennar [Monroe] var þegar ég fór að lesa mér til um hana. [...],“ segir Fox í viðtali við nýjasta tölublað tímaritsins Esquire. Segist hún ekki hafa viljað upphefja eitthvað jafn neikvætt og því hafi hún ákveðið að losa sig við húðflúr af leikkonunni látnu sem hún hafði fengið sér nokkrum árum áður.
Fox segist eftir sem áður þykja mikið til Monroe koma. Sér hún ákveðin líkindi með henni og Lindsay Lohan, sem sú síðarnefnda hlýtur að fagna - þrátt fyrir að samhengið sé ekki mjög jákvætt.
"Hún [Monroe] var ekki valdamikil. Hún var að hluta til eins og Lindsay. Hún var leikkona sem ekki var hægt að treysta á, sem ekki var hægt að tryggja sig fyrir [gegn vanefndum]... hún stóð frammi fyrir gífurlegum tækifærum en glutraði þeim niður," segir Fox og bætir við að hún sé ekki áhugasöm um að fylgja í þau fótspor.
Talaði tungum
Fox kemur víðar við í viðtalinu en að tala aðeins um framann. Tjáir hún sig einnig um trúmál sem virðast henni hugleikin. Segist hún hafa talað tungum þegar hún var átta ára og sótti kirkju í Tennessee.
„Það var svo mikil orka í herberginu að þér leið eins og hvað sem er gæti gerst,“ segir leikkonan.
Enn í dag segist Fox finna ró í kirkjum, sem hafi eflaust hjálpað henni að sneiða hjá áfengi og pillum og þannig forðað frá því að lenda í svipuðum sporumog Lindsay, Marilyn og jafnvel Britney Spears.
„Ég þoli ekki pillur og finnst ekki gott að neyta áfengis. Ég vil vera við stjórnvölinn,“ bætir hún við.