Simon Le Bon vandaði vestrænum þegnum ekki kveðjurnar í blaðaviðtali á dögunum. Hvetur hann fólk til að sjá hlutina í samhengi og forðast að kveinka sér yfir efnahagslægðinni sem nú ríkir.
„Við verðum að setja hlutina í samhengi. Þrátt fyrir að efnahagslægðin nú sé okkur erfið hér í vestrinu þurfum við að komast í gegnum hana. Við ættum að muna hvernig fólk í Afríku og Indlandi býr, það sem á nákvæmlega ekkert annað en fjölskylduna, ást, tónlist og gleðina [sem því fylgir],“ sagði fyrrum Duran Duran söngvarinn í viðtali við breska dagblaðið The Times á dögunum.
Sagðist hann sífellt furða sig á því þegar hann yrði var við vel stæða einstaklinga kvarta yfir því að þurfa að horfa meira í aurinn nú en áður.