Enginn „karlaklúbbur“ í kvikmyndaiðnaði

Baltasar Kormákur er að vonum ánægður með gengi Djúpsins á …
Baltasar Kormákur er að vonum ánægður með gengi Djúpsins á Edduverðlaununum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Leikstjórinn Baltasar Kormákur er að vonum ánægður með gengi Djúpsins á Eddu-verðlaununum. Kvikmyndin sankaði að sér ellefu verðlaunum, sem er meira en nokkur önnur mynd hingað til. Hann kannast ekki við það að kvikmyndaiðnaður á Íslandi sé „karlaklúbbur,“ þrátt fyrir umræðu þess efnis á Edduhátíðinni. Hann fær fleiri tilboð frá erlendum kvikmyndaverum en hann ræður við að fara yfir.    

Eddan hjálpar til erlendis

„Þetta hjálpar til við að selja hana um allan heim og það er gott að geta sagt frá því að þetta hafi verið myndin sem skaraði fram úr á Íslandi þetta árið. Við munum reyna að nýta okkur gott gengi Djúpsins og koma því til skila til fjölmiðla erlendis,“ segir Baltasar.

Að sögn Baltasars er búið að selja myndina mjög víða og viðtökur hafa verið góðar. Til að mynda hafi hún nýlega verið sýnd á kvikmyndahátíð í Berlín þar sem færri komust að en vildu.

Hann á von á því að myndin standi undir sér, en heildarkostnaður við Djúpið er að sögn hans á milli 300-400 milljónir króna. „Ég tók þá ákvörðun að gera myndina óháð því hvort hún myndi gefa vel af sér því mig langaði að segja þessa sögu og ekki slá af neinu,“ segir Baltasar.

Þó myndin hafi verið dýr í framleiðslu á íslenskan mælikvarða, hafi menn erlendis furðað sig á hvernig til tókst með svo hóflegu fjármagni. „Menn í Bandaríkjunum hafa komið að máli við mig og spurt hvernig tókst að gera myndina undir 20-30 milljónum dollara. Eitthvað erfiðasta sem þú gerir er að taka á sjó. En ég var með frábært „crew“ og það er ekki sjálfgefið að fólk vilji stunda sína dagvinnu syndandi í ísköldu ballarhafinu,“ segir Baltasar.  

Kvennaklúbbur ef eitthvað er

Á Edduverðlaununum mátti heyra gagnrýni um rýran hlut kvenna í íslenskum kvikmyndum. Voru til að mynda einungis þrjár konur tilnefndar fyrir besta leik í auka- og aðalhlutverki en fimm karlar voru tilnefndir. Aðspurður telur Baltasar það ekki vera vegna útskúfunar kvenna.

„Ég vil veg kvenna í kvikmyndagerð sem mestan. En þegar talað er um að konur komist ekki að og um sé að ræða karlaklúbba, þá er það ekki rétt. Menntamálaráðherra er kvenmaður sem og forveri hennar, hún ræður kvenmann, Laufeyju Guðjónsdóttur, sem forstöðumann kvikmyndamiðstöðvar sem veitir styrki úr kvikmyndasjóði. Þar er hópur sem velur handrit til að styrkja og í honum hefur alltaf verið alla vega einn kvenmaður, ef ekki tveir, af tveimur. Svo er kvikmyndahátíð stjórnað af kvenmanni og norræna Kvikmyndasjóðnum stjórnað af kvenmanni. Því myndi ég segja að þetta væri frekar kvennaklúbbur ef eitthvað er,“ segir Baltasar kíminn.

Ekkert leysist með upphrópunum

Hann telur vandamálið vera það að konur sæki ekki í leikstjórn og handritaskrif í eins ríkum mæli og karlar. „Það má benda á að kvikmyndatónlist er mun oftar skrifuð af karlmönnum en búningahönnuðir eru oftar konur. Því er ákveðin skipting í þessu. Hver ástæðan er veit ég ekki nákvæmlega,“ segir Baltasar. 

„Ef við berum þetta saman við Bandaríkin þá eru heldur ekki margir kvenleikstjórar þar, en þar er mikið af kvenframleiðendum. Í grunninn þá er ég algjörlega sammála því að það sé betra fyrir menningararfinn að kynjaskiptingin sé jafnari. En það leysist ekki með upphrópunum um að það sé fyrirstaða í kerfinu og þetta sé karlaklúbbur.

Í stað slíkrar umræðu held ég að best sé að ráðast á rót vandans og hvetja konur til að sækja í þetta í ríkara mæli. Hlutfallslega hallar t.a.m ekki á konur þegar kemur að því að bera saman styrkveitingar og umsóknir í kvikmyndasjóð,“ segir Baltasar. 

„Ég vil alls ekki draga úr þessum skilaboðum um að kvikmyndir séu gerðar af kvenfólki. En þær þurfa helst að vera góðar,“ segir Baltasar.

101 Reykjavík enn í sýningu

Baltasar telur að Djúpið geti átt langan líftíma. Sem dæmi sé 101 Reykjavík enn í sýningu á stöku stað erlendis, en hún var gerð árið 1999. „Venjulega er myndin í 1-2 ár í bíó um heiminn. Í dag er það ekki það eina sem skiptir máli, áhorf og neysla kvikmynda hefur breyst mikið. Það þykir fínt að fara í bíó og góð aðsókn er í raun bara góð auglýsing fyrir myndina, en flestir horfa á myndirnar heima,“ segir Baltasar.   

Baltasar segir kvikmyndaiðnað á Íslandi mjög háðan árferði en í ár hafi þó tvær myndir fengið mikla aðsókn og góða dóma. Auk Djúpsins var Svartur á leik á lista yfir fjölsóttustu kvikmyndir síðasta árs hér á landi. „Það er ekkert sjálfgefið. Ég myndi segja að þetta hafi verið gott ár og það er ekki á hverju ári sem tvær íslenskar myndir eru á nærri toppi í aðsókn,“ segir Baltasar.  

Sannfærir erlenda aðila um að Ísland sé góður tökustaður

Á næstunni stefnir Baltasar að því að klára mynd sem skartar Denzel Washington í aðalhlutverki og heitir Two guns. Því næst fer hann til Ungverjalands til að gera prufuþátt fyrir HBO sem heitir Missionary og gerist hann á kaldastríðsárunum.

Þá undirbýr hann tökur á mynd sem heitir Everest sem byggist á sömu sögu og sögð er í bókinni Into thin air. „Ég er að reyna að telja fólk á að taka 80% af myndinni á Vatnajökli og restina í Nepal. Þetta er mynd sem áætlað er að kosti 60 milljón dollara,“ segir Baltasar.

Hann segist fá tilboð frá stúdíóum svo til í hverri viku. „Ég kemst ekki einu sinni yfir að lesa þetta allt, því miður. Ég vil ekki hljóma eins og ég sé með einhvern gorgeir, en svona er þetta þegar hlutirnir fara á flug. „When it rains, it pours,“ (Þegar rignir, þá hellirignir). Það getur svo allt farið í burtu, maður þarf ekki að klikka oft,“ segir Baltasar og hlær við.

Djúpið hlaut 11 Edduverðlaun. Hér er Ólafur Darri í hlutverki …
Djúpið hlaut 11 Edduverðlaun. Hér er Ólafur Darri í hlutverki sínu en hann fékk verðlaun fyrir besta í karlhlutverki. mbl.is
Baltasar Kormákur á Edduverðlaununum.
Baltasar Kormákur á Edduverðlaununum. Styrmir Kári
Baltasar Kormákur vinnur að myndinni Two guns sem skartar Denzel …
Baltasar Kormákur vinnur að myndinni Two guns sem skartar Denzel Washington í aðalhlutverki.
Mynd um slys á Everest-fjalli er í farvegi.
Mynd um slys á Everest-fjalli er í farvegi. Morgunblaðið/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir