„Þetta var æðisleg tilfinning og ég var full af þjóðarstolti,“ segir Hrafnhildur Magnúsdóttir sem fylgdist með því þegar söngkonan Hera Björk Þórhallsdóttir vann verðlaun fyrir lag ársins á alþjóðlegu söngvakeppninni Viña del Mar í Síle.
Hrafnhildur, sem er búsett í Síle, segir að Hera Björk hafi verið frábær á sviðinu. Fólk hafi sérstaklega talað um það hvað hún væri sterk söngkona. „Hún vakti líka mikla athygli fyrir útgeislun,“ segir Hrafnhildur og bætir við að hún hafi hrifið alla með sér.
„Þetta var rosalega skemmtilegt. Við fórum fimm saman en ég var með vini mína frá Santiago [höfuðborg Síle]. Ég var reyndar eini Íslendingurinn og við mættum með íslenskan fána. Þegar við byrjuðum að veifa fánanum þá tóku þeir [öryggisverðir á keppninni] okkur fremst,“ segir Hrafnhildur og bætir við að hópurinn hafi sungið hástöfum með.
„Það kom fram í einu blaðinu að „Hera á greinilega sterkan stuðningshóp hér í Síle“. Við vorum fimm en það voru bara svona mikil læti í okkur,“ segir Hrafnhildur hlæjandi og bætir við að aðeins listamenn frá Síle hafi verið með eins öflugan stuðningshóp og Hera Björk.
Þá segir hún að það hafi vakið athygli hvað lag Heru Bjarkar hefur vakið mikla athygli í Síle, en þar nýtur það mikilla vinsælda. Hrafnhildur tekur jafnframt fram að íbúar Síle viti almennt mjög lítið um Ísland.
Það voru svo bresku tónlistarmennirnir Elton John og Albert Hammond sem tóku að sér að hita upp fyrir keppnina. Hrafnhildur segir að það hafi verið mjög skemmtilegt sjá þá koma fram.
Að lokinni keppni fór hópurinn ásamt Heru og öðrum söngvurum á hótel þar sem hver og einn vinningshafi var klappaður upp og beðinn um að taka lagið. Hera söng viðlagið úr sínu lagi á spænsku við mikinn fögnuð viðstaddra sem hrópuðu „Gaviota, gaviota“, sem þýðir á íslensku „mávurinn, mávurinn“, en verið var að vísa til verðlaunagripanna sem eru veittir á keppninni.
Frá árinu 1960 hefur keppnin farið fram árlega í borginni Viña del Mar. Hrafnhildur bendir á að söngvarar á borð við Julio Iglesias og Shakiru séu á meðal þeirra sem hafa verið uppgötvaðir á keppninni. „Þetta er rosalega mikilvæg keppni og getur opnað fyrir henni [Heru] dyr í Rómönsku-Ameríku,“ segir hún.Hrafnhildur bætir við því að áhorfendur á Vina del Mar keppninni séu kallaðir El Monstruo á spænsku, sem þýðir skrímslið á íslensku. Það er vegna þess að þeir hika ekki við að púa niður eða baula á þá sem þeim þykir standa sig illa. Áhorfendurnir eru sömuleiðis óhræddir við að klappa fyrir og fagna séu þeir ánægðir með frammistöðu keppenda.
„Þetta er frábært fyrir mig og viðurkenning á því að ég eigi að halda áfram að gera tónlist og gefa út,“ sagði Hera Björk á blaðamannafundi eftir keppnina.
Sigurlagið heitir Because You Can, en það hefur hljómað mikið í útvarpi á spænsku undanfarna daga.