Aftur í faðm fantsins

Árið 2009 kærði hún kærastann fyrir gróft ofbeldi og uppskar í kjölfarið virðingu og aðdáun. Árið 2012 snéri hún aftur í faðm fantsins. Hvers vegna hagar Rihanna sér svona?

Framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, Sigþrúður Guðmundsdóttir, segir það algengt að konur snúi aftur til mannanna sem beiti þær ofbeldi. Þeir hafi oft sterkt tangarhald á þeim, viti leyndarmál þeirra og þrár. Oft taki það konur fleiri ár að losna úr viðjum heimilisofbeldis. Rihanna er því ekki einstakt tilfelli - hegðun hennar er mjög dæmigerð.

„Hreinskilni Rihönnu um reynslu sína af heimilisofbeldi er ekki aðeins aðdáunarverð. Hún hefur breytt lífi kvenna,“ skrifaði Alex Macperson, dálkahöfundur dagblaðsins Guardian uppveðraður í nóvember árið 2009 í kjölfar þess að fyrrverandi kærastinn Chris Brown hafði verið dæmdur fyrir að beita hana ofbeldi að kvöldi Grammy-verðlaunanna það ár. Rihanna hafði gefið Diane Sawyer viðtal um reynslu sína. Hún hafði staðið uppi sem sigurvegari.

Sjaldan hefur heimilisofbeldismál náð eyrum jafn margra. Mynd af mörðu og bólgnu andliti Rihönnu rataði í fjölmiðla skömmu eftir árásina. Rihanna sagði lögreglunni frá því að Brown hefði áður beitt hana ofbeldi. Þau höfðu verið par frá árinu 2005.

Hefði getað drepið hana

Rihanna, þá aðeins 21 árs, var hundelt af fjölmiðlum. Mörgum þótti hún buguð og beygð en flestir voru á því að hún hefði sýnt gríðarlegt hugrekki er hún kærði kærastann fyrir árásina, vitandi að dómstóll götunnar myndi rífa það í sig. Hún þurfti að þola að vera sögð hafa kallað ofbeldið yfir sig, að geta sjálfri sér um kennt og að gera úlfalda úr mýflugu. Rétt eins og aðrar konur sem hafa verið beittar heimilisofbeldi.

En Rihanna stóðst þetta mikla álag. Hún hélt áfram að þroskast sem tónlistarmaður og vinsældir hennar jukust með hverju árinu. Í dag er hún ein skærasta poppstjarna heims.

Í viðtalinu við Diane Sawyer haustið 2009 sagði Rihanna m.a. að hefði hún snúið aftur til Browns eftir árásina hefði það verið sjálfselsk ákvörðun, knúin af ást, sem „hefði getað endað með því að stúlka yrði drepin.”

Í kjölfar viðtalsins loguðu símalínur samtaka sem styðja við fórnarlömb heimilisofbeldis í Bandaríkjunum. Símtölum til National Domestic Violence Hotline fjölgaði um 59% og símtölum til þjónustu fyrir táninga sem orðið hafa fyrir ofbeldi fjölgaði um 73%.

Rihanna hafði breytt lífi margra kvenna. Fræg kona var lamin til óbóta af kærastanum. Margar konur deildu þeirri reynslu og vildu fylgja í kjörkuð fótspor hennar er hún kærði ofbeldið.

„Ég verð alltaf stúlkan þín“

En svo breyttist allt. Í fyrra fóru að berast fregnir af því að hún og kærastinn fyrrverandi væru að draga sig saman að nýju. Þau gáfu meira að segja út lag saman þar sem sungið var um að fólk ætti ekki að skipta sér af því sem kæmi því ekki við. „Þú verður alltaf strákurinn minn - ég verð alltaf stúlkan þín,“ söng hún.

Rihanna hafði snúið aftur í faðm fantsins. Þess hins sama og hún hafði fengið nálgunarbann á þremur árum áður.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir það oft reynast konum erfitt að slíta sambandi við ofbeldismenn sína. „Það er mjög algengt, um þriðjungur kvenna sem leitar til athvarfsins okkar fer heim aftur í óbreyttar aðstæður,“ segir hún. Konurnar koma jafnvel nokkrum sinnum í athvarfið áður en þeim tekst að slíta sambandinu. „En skilnaðartíðni í ofbeldissamböndum er hærri en í öðrum samböndum. Þannig að líkurnar á því að konan fari á endanum eru býsna miklar.“ Hins vegar gerist það oft seint og til þess þarf margar tilraunir.

Rihanna var ung er ofbeldið átti sér stað, þó hún og Brown hafi verið saman í mörg ár. Sigþrúður segir það nokkuð algengt að ungar konur leiti í Kvennaathvarfið vegna ofbeldis frá kærustum. Löng sambönd og börn þurfi ekki að koma til.

Í fyrra komu 18 konur í Kvennaathvarfið vegna ofbeldis kærasta (sem ekki var sambýlismaður eða barnsfaðir). Það eru 6% af konunum sem nýttu sér athvarfið í fyrra. Sextán konur eða 5% komu vegna fyrrverandi kærasta.

„Það er áberandi hversu vel ofbeldismönnum tekst oft á stuttum tíma að flækja konur í sitt net,“ segir Sigþrúður. „Það er alveg með ólíkindum.“

Sigþrúður segir að mál Rihönnu og Brown sé dæmigert um hvað gerist í ofbeldissambandi. „Það er ekki þannig að hann lemji hana og að hún verði í kjölfarið ástfangin. Þetta gerist í öfugri röð. Hann þekkir hana vel, veit um alla veiku bletti hennar og leyndarmál en líka um óskir hennar og þrár. Það er sérstaða heimilisofbeldis og það æpir á mann í þessu máli.“

Ekki hægt að leggja ábyrgð umræðunnar á Rihönnu

Tilfinningalegu tengslin voru til staðar áður en til ofbeldisins kom. Hún elskaði hann áður en hann braut gegn henni. Nú segir hún hann alltaf hafa verið sína einu ást. Og eftir að hún gaf Opruh Winfrey viðtal í haust, þar sem hún játaði ást sína á Brown, voru margir hreinlega ævareiðir út í hana.

Er Rihanna þá orðin mjög slæm fyrirmynd kvenna sem þurft hafa að þola ofbeldi?

Sigþrúður segir alltof mikið lagt á hina ungu Rihönnu að eiga að bera ábyrgð á umræðunni um heimilisofbeldi. „Þetta er það sem gerist svo oft. Það að hún hafi stigið fram sem brotaþoli sýndi að það eru alls konar konur sem verða fyrir heimilisofbeldi. En slíkt ofbeldi er gríðarlega flókið fyrirbæri og þetta mál sýnir einnig að það eru líka alls konar konur sem fara aftur til ofbeldismanna sinna.“

„Hún er mjög gott dæmi um hversu langt við eigum í land,” segir einn aðdáanda hennar, tónlistarkonan Kieran Yates. „En ég held hún sé enn sterk kona þrátt fyrir allt. Ég vil hins vegar ekki tilheyra menningu sem hrífst af Chris Brown. Ég vil ekki að hann sé sýnilegur.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir