Tíu frænkur frá Patreksfirði eiga miklu barnaláni að fagna. Samtals hafa þær eignast 19 börn, þar af 17 síðustu fimm árin og tvö eru væntanleg í ár. „Fyrir um fimm árum fóru barneignirnar af stað hjá okkur og hafa ekki stoppað síðan,“ segir Stella Fjeldsted, ein af frænkunum tíu. Mikil samheldni ríkir hjá þeim og eru þær mjög nánar.
Foreldrar þeirra, sjö systkini og makar, bjuggu í bænum alla þeirra bernsku en fyrir um 15 árum flutti fyrst ein fjölskyldan úr bænum. Hægt og bítandi fylgdu hinar fjölskyldurnar á eftir og búa nú langflestir í höfuðborginni.
Frænkurnar reyna að hittast sem oftast, minnst einu sinni til tvisvar í mánuði. Þær eru ekki með skipulagða hittinga en eru með hóp á Facebook sem kallast „Frænkurnar“ og þar skipuleggja þær fundina. Í fyrsta sinn í fyrra tóku þær lítinn sal á leigu og héldu jólaball í tilefni þess að amma þeirra hefði orðið áttræð. Ballið vakti mikla lukku innan fjölskyldunnar og er ætlunin að skipuleggja slíka skemmtun aftur. Piparkökubakstur, sumarbústaðaferðir og lítil sumarættarmót er meðal þess sem hópurinn gerir saman. Þó að frænkurnar séu duglegar að hittast með börnin reyna þær líka að eiga gæðastundir hver með annarri án barnanna og fara út að borða saman eða halda saumaklúbba.
Eiginmaður Stellu er sjómaður. Hún er því oft ein með börnin og gefur það henni mikið að hafa allan þennan hóp í kringum sig.
„Mér finnst mjög mikilvægt að geta alltaf hitt einhvern. Ég er aldrei einmana,“ segir Stella. Frænkurnar hafa gengið í gegnum súrt og sætt saman og í erfiðleikum hafa þær reynt að vera til staðar hver fyrir aðra.
Þegar eitt þessara 19 barna, Þórhildur Nótt, greindist með illvígan taugahrörnunarsjúkdóm, SMA1, voru frænkurnar duglegar að skipuleggja frænkuhittinga þegar svigrúm gafst fyrir móður Þórhildar. „Við vildum dreifa huga hennar og fá hana út með okkur þegar hún gat,“ segir Stella.
Árið 2011 lést Þórhildur Nótt einungis þriggja ára. Segir Stella að þó öll börnin séu ung að árum, sé ekki mikið um grát eða hávaða þegar þau hittast. Börnin tengjast hvert öðru mismikið, en þegar þau koma saman sé alltaf gaman og þau ná að leika sér í mesta bróðerni. Það sé ávallt ljúft og gott að eyða tíma saman.