„Þetta er annað árið mitt í þessari byggingu og maður tók eftir því hvað andinn breyttist. Hvað maður lyftist upp eftir að þær byrjuðu. Það er umtalað hvað þær eru elskulegar og það smitast. Þetta er það sem mannleg samskipti snúast um. Það er þetta viðmót, þessi hlýja og gefa þetta litla extra - horfa í augun og muna nafnið. Spyrja hvernig þú hefur það og meina það,“ segir Tómas Oddur Eiríksson, nemi í landfræði við Háskóla Íslands.
Hann og aðrir úr nemendafélaginu Fjallinu ákváðu í dag að færa konunum í mötuneytinu í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, veglegar gjafir sem þakklæti fyrir þeirra þjónustu og störf í vetur.
„Við erum mest í Öskju og búum við þau miklu lífsgæði og erum svo lánssöm að hafa þessar tvær dömur, Bettínu og Siggu, sem vinna í matsölunni. Það hafa nú margir unnið þarna í gegnum tíðina og maður ímyndar sér ekki að þetta sé best launaðasta starf í heimi en samt sem áður eru þær tvær þarna á hverjum einasta degi, brosandi og sólskin út í eitt. Þær svoleiðis lyfta manni upp. Maður kemur þarna, eins og skólalífið getur tekið á taugarnar, og maður sér ekki ljósið fyrir heimavinnu og álagi - þá gera þær daginn svo bjartan bara með þessu viðmóti,“ segir Tómas Oddur.
Í tilefni þess að í dag er síðasti formlegi kennsludagurinn ákvað Tómas Oddur að auglýsa söfnunina á facebook-síðu nemendafélagsins.
„Það var ekki liðinn hálfur dagur þegar reikningurinn minn var búinn að þenjast út og allir tilbúnir að leggja í púkk. Við keyptum handa þeim veglegar gjafir, gjafakort, út að borða og nudd,“ segir Tómas Oddur.
„Þær eru algjörlega búnar að setja tóninn. Ég hef tekið eftir því. Þær gefa þetta litla extra og miklu meira. Þær næra mann þarna á líkama en eru algjörlega að næra mann á sálinni. Þær eru mömmurnar okkar allra og virkilega gera þetta heimilislegra og betra andrúmsloft. Við vildum verðlauna fyrir þetta - það sem að vel er gert og helst að það væri tekið eftir því,“ segir Tómas Oddur.
Hann segir þær eiga hlutdeild í velgengni nemendanna. Þeirra viðmót skili sér áfram í náminu. „Ég vona að þær fái væna launahækkun eða annan ráðningasamning. Við vonum svo að þær verði áfram,“ segir hann.