Margir telja Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva vera frekar hallærislega en jafnframt er fólki oft mjög heitt í hamsi þegar það ræðir um úrslitin, lögin og keppnina. Þessi skemmtilega þversögn er eitt af því sem Steinunn Guðmundardóttir rannsakaði í meistararitgerð sinni um hina einu sönnu Evróvisjón.
„Margar milljónir fylgjast með þessari keppni en samt hefur hún það orð á sér að vera annars flokks. Fólki finnst hún svolítið hallærisleg og fyrir vikið er það ekki tilbúið til að viðurkenna að það fylgist með henni eða finnist lögin í keppninni æðisleg. Þetta er merkileg þversögn,“ segir Steinunn Guðmundardóttir þjóðfræðingur og safnkennari sem s.l þriðjudag flutti erindi við Þjóðminjasafn Íslands um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Erindið kallaði hún Sameiningartákn eða sundrungarafl? „Ég skrifaði meistararitgerðina mína árið 2007 um Evróvisjón, en þá var ég í námi á Írlandi. En ég gerði hluta af rannsókninni hér heima, til að hafa samanburðinn. Írar hafa unnið þessa keppni oft og fyrir vikið líta þeir allt öðruvísi á hana en Íslendingar, sem hafa aldrei unnið.“
Í rannsókninni skoðaði Steinunn viðhorf hins almenna áhorfanda til keppninnar og hinar miklu vinsældir hennar. „Þó svo að fólk virðist ekki líta á tónlistina í keppninni sem gæðatónlist, þá hefur það mjög sterkar skoðanir á keppninni og lögunum. Fólki er oft mjög heitt í hamsi og mesta púðrið fer í að halda fram hinum ýmsu samsæriskenningum, að stigagjöfin sé ósanngjörn, að Austur-Evrópa hafi tekið yfir keppnina og að þau lönd kjósi alltaf hvert annað og fyrir vikið verðum við hér í vestrinu útundan. Þannig hefur komið upp ákveðinn aðskilnaður austurs og vesturs. Okkur Íslendingum fannst líka mikið svindl að við mættum ekki syngja á ensku, þegar allir áttu að syngja á móðurmálinu, það væri ósanngjarnt því þá hefði enskumælandi lönd forskot. Reglulega hafa komið upp kenningar um að ákveðnar dómnefndir séu ekki heiðarlegar, oft hefur verið talað um að maltneska dómnefndin væri að reyna að kaupa og selja stig.“
Niðurstaða Steinunnar er sú að ástæðan fyrir því að fólk hefur svo sterkar skoðanir á keppninni, sé sú að ákveðin þjóðerniskennd spili inn í þetta. „Þegar einhver fer að keppa fyrir Íslands hönd, þá viljum við að okkur gangi vel. Okkur finnst við jafnvel eiga eitthvað inni hjá einhverjum þegar kemur að stigagjöf. Við verðum t.d. mjög móðguð sem þjóð ef Danmörk gefur okkur ekki stig. Ástæðan fyrir því hvað þetta er oft mikið hitamál, er líka sú að það er verið að keppa í einhverju sem er í raun ekki hægt að keppa í. Það er ekki hægt að setja mælistiku á lögin og fólk er fyrir vikið afar ósammála um hvað sé gott lag og hvað slæmt. Þetta er algerlega huglægt mat og við förum að horfa á þetta út frá þjóðernislegum pælingum.“
„Ég vil meina að keppnin sé frekar sameiningartákn en sundrungarafl, því lagið sem vinnur er oftast langefst, það fær mörg stig frá öllum. Í því sameinast Evrópa,“ segir Steinunn og bætir við að Samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, sem á keppnina og skipuleggur hana, fylgist vel með ólgu og óánægju sem upp kemur og breyti reglunum til að gera keppnina eins sanngjarna og hægt er. „Til að öllum finnist þeir eiga möguleika á að vinna. Enda er gríðarlegt sjónvarpsáhorf sem fylgir keppninni.“ Hún segir keppnina hafa hafist árið 1956 og þá var hún send út beint, eins og verið hefur allar götur síðan. „Þá var sjónvarpið ekki einu sinni komið til Íslands. Íslendingar tóku fyrst þátt árið 1986 með Gleðibankanum og ætluðu heldur betur að vinna. Við bíðum enn eftir sigrinum.“