Sumir sjá ekki skóginn fyrir trjám, en aðrir ganga ekki heilir til skógar. Það síðarnefnda gæti hugsanlega átt við um Uwe Schrager, en hann keyrði nýlega á tré til að athuga hvort öryggisloftpúðarnir í bílnum hans virkuðu ekki örugglega.
„Slysið“, ef svo er hægt að kalla það, átti sér stað í neðra-Saxlandi. Þegar lögregla kom á staðinn sagði Schrager að hann hafði áður verið búinn að keyra tvisvar á vegg, á minni hraða, til að kanna virkni púðanna.
Í frétt Motor Authority er sérstaklega tekið fram að Schrager hafi ekki verið undir áhrifum áfengis eða annarra lyfja. Hann hafi einfaldlega viljað ganga úr skugga um að öryggisbúnaður bílsins virkaði sem skildi. Eftir áreksturinn ætlaði hann sér að troða loftpúðunum aftur á sinn stað, svo þeir væru tilbúnir fyrir næsta árekstur. Vart þarf að segja lesendum að þannig virka loftpúðar ekki.
Lögreglan mun á næstu dögum meta hvort ástæða þyki til að Schrager sæti geðrannsókn.