Rod Stewart notaði stera stíft á níunda áratugnum. Taldi hann sig hlífa raddböndunum með notkun efnanna og það þrátt fyrir óskemmtilegar aukaverkanir.
„Ég brást sjálfum mér á tónleikaferðalögum á níunda áratugnum en ég varð háður sterum,“ sagði söngvarinn í viðtali við tímaritið Mojo á dögunum. Segir hann efnin hafa hjálpað honum að slá á bólgur í raddböndunum, sem nýttist honum vel á tónleikaferðalögum. Því hafi hann látið sig hafa það að nota þau, þrátt fyrir að ýmsir aukakvillar hafi fylgt.
Mælir hann lyfjunum hreint ekki bót og segist hafa orðið bæði uppstökkur og svefnvana, feitur og útblásinn af notkun þeirra. Þá hafi kynfæri hans líka skroppið saman á þessum tíma. Verst varð þó ástandið þegar hann var kominn með innvortis blæðingar.
„Kvöld eitt á sviði í Sheffield fannst mér ég vera heima í eldhúsi hjá móður minni [...]. Ég var þá með innvortis blæðingar og ofskynjanir,“ sagði hann og velti fyrir sér hvað áhorfendur hafi haldið.