Svartklæddur og síðhærður Eyþór Ingi Gunnlaugsson átti sviðið um stund í Malmö í kvöld og fipaðist hvergi í flutningi sínum á laginu Ég á líf. Honum var fagnað innilega af 11 þúsund áhorfendum tónleikahallarinnar.
Eyþór Ingi var 19. í röðinni af 26. löndum sem keppa á úrslitakvöldinu. Hann kom, líkt og í undanúrslitunum á fimmtudag, fram í svörtum jakka og svörtu vesti en hvítri skyrtu prýddur skarti í anda víkinga.
Hin danska Emmelie de Forrest var næst á undan Eyþóri Inga og Farid Mammadoy frá Aserbaídsjan fylgdi strax á eftir. Bæði lög þykja sigurstrangleg en Eyþór Ingi þarf ekki að óttast samanburðinn miðað við frammistöðu hans í kvöld.
Tístarar á Twitter virðast sáttir og hafa nokkrir orð á því að hann sé langbesti karlsöngvarinn í keppninni í ár.