Hvalfirði vel tekið í Cannes

Góður rómur var gerður að íslensku stuttmyndinni Hvalfjörður sem frumsýnd var á kvikmyndahátíðinni í Cannes í dag. Hún hefur spurst vel út og telja menn að hún eigi möguleika á að vinna stuttmyndakeppnina, en úrslit í öllum keppnunum verða kunngerð þessa helgina.

Samkvæmt upplýsingum frá fréttaritara mbl.is í Cannes var Hvalfirði best tekið þeirra stuttmynda sem sýndar voru í morgun. Höfundur myndarinnar og leikstjóri er Guðmundur Arnar Guðmundsson.

Íslenskar stuttmyndir hafa áður verið sýndar á Cannes en árið 2008 keppti mynd Rúnars Rúnarssonar, Smáfuglar. Rúnar er einmitt einn framleiðenda Hvalfjarðar.

Frönsk-íslensk mynd vann áhorfendaverðlaun

Þegar er búið að tilkynna úrslitin í nokkrum hliðarkeppnum einsog í stuttmyndakeppninni sem fransk-íslenska stuttmyndin Víkingar eftir leikstjórann Magali Magistri var í. Stuttmynd Magali vann áhorfendaverðlaunin í gær en þýsk stuttmynd vann aðalverðlaunin.

Stuttmynd hennar fjallar um víking árið 1000 og nútíma víking í samtímanum og hvernig svipuð barátta þeirra fyrir fjölskyldunni er leyst með öðrum hætti á öðrum tímum. Allir leikarar myndarinnar og allt kvikmyndateymið eru Íslendingar utan leikstjórinn sjálfur sem er 34 ára gömul frönsk kona.

Aðspurð hvernig það hafi komið til að hún hafi tekið stuttmynd sína á Íslandi segir hún að hún hafi kynnst landinu í gegnum eiginmann sinn, Chris Briggs, sem var einn meðframleiðenda bíómyndarinnar Svartur á leik. „Hann vinnur mikið með Zik Zak,“ segir Magali. „Hann er algjörlega háður Íslandi. Hann verður að heimsækja það oft á ári, annars verður hann órólegur. Ég þekkti aðeins landið í gegnum bíómyndina Nói albínói, sem mér fannst frábær mynd. En eftir að ég fór að fara með Chris til landsins varð ég ástfangin af því. Mér finnst Íslendingar vera mjög nútímalegir en samt er svo gömul og sterk menning í þeim. Landið er svo mystískt og fagurt. Mig langaði til að skoða þetta að hluta í þessari stuttmynd. Hvernig karlmennska hefur breyst. Tengja saman það gamla við hið nýja á Íslandi. Ég réð Svein Ólaf Gunnarsson í aðalhlutverkið. Eftir að hafa séð myndina Á annan vegfannst mér enginn annar koma til greina í hlutverkið. Hann er bæði með svona sterka karlmennskutóna í sér en einnig mögulega mýkt. Svo fékk ég Damon Younger í hlutverk illmennisins og þau Margréti Bjarnadóttur, Ólaf Egilsson og Þröst Leó Gunnarsson í önnur hlutverk. Það var frábært að vinna með þeim. Högni Egilsson úr Hjaltalín gerði frábæra tónlist við verkið og þeir Skúli Malmquist og Þórir Snær Sigurjónsson redduðu öllu sem þurfti að redda í framleiðslunni. Það var virkilega gaman að vinna þessi verðlaun og vonandi mun ég geta gert fleiri myndir á Íslandi.“

Aðspurð hvernig það hafi gengið að fá franska peninga í svona íslenska mynd segir hún að það hafi ekki verið mikið mál. „Af því að þetta er stuttmynd þá mátti ég fara með peningana hvert sem sagan leiddi mig og taka hana upp á því tungumáli sem hentaði sögunni. Mér fannst það bara asnaleg hugmynd að ætla að gera hana á einhverju öðru tungumáli en íslensku. Þeir hjá franska sjóðnum hefðu kannski ekki leyft mér það ef um bíómynd hefði verið að ræða, þá hefði ég þurft að taka hluta hennar upp á frönsku,“ segir Magali.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert gæddur góðum hæfileikum en hefur ekki nægilegt sjálfstraust til að nýta þér þá. Ástamálin ganga vel, þú svífur um á bleiku skýi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Hugrún Björnsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert gæddur góðum hæfileikum en hefur ekki nægilegt sjálfstraust til að nýta þér þá. Ástamálin ganga vel, þú svífur um á bleiku skýi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Hugrún Björnsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir