„Þetta opnar margar dyr og er ákveðinn gæðastimpill,“ segir Anton Máni Svansson einn framleiðanda stuttmyndarinnar Hvalfjörður sem fyrr í kvöld hlaut sérstök dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Myndin fékk afar jákvæð viðbrögð og jafnvel var búist við því að hún myndi hreppa Gullpálmann.
Alls voru 3.500 stuttmyndir, frá 132 löndum, sendar inn í keppnina. Af þeim voru níu valdar áfram í aðalkeppnina, þar sem Hvalfjörður var ein útvalinna. Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstýrði myndinni, skrifaði handrit og var einn framleiðanda. Aðrir meðframleiðendur eru Sagafilm, Danirnir Darin Mailand-Mercado og Jacob Oliver Krarup ásamt Rúnari Rúnarssyni.
Í myndinni fá áhorfendur að skyggnast inn í líf tveggja bræðra sem búa ásamt foreldrum sínum á litlum sveitabæ. Kynnast áhorfendur heimi þeirra frá sjónarhorni yngri bróðurins og fylgja honum í gegnum örlagaríkt tímabil sem markar þáttaskil í lífi fjölskyldunnar.
Anton Máni segir aðstandendur myndarinnar afskaplega þakkláta fyrir verðlaunin og reiknar með að hún fari í kjölfarið til sýninga á fleiri kvikmyndahátíðum. Næst fer hún til Sydney í Ástralíu þar sem hún verður sýnd á undan myndinni Prince Avalanche, endurgerð íslensku myndarinnar Á annan veg.