Mest í stórkarlalegum töfrabrögðum

Katrín Jakobsdóttir nýtur mests trausts stjórnmálamanna á Íslandi enda töfrandi …
Katrín Jakobsdóttir nýtur mests trausts stjórnmálamanna á Íslandi enda töfrandi kona - bókstaflega. mbl.is/Kristinn

Katrín Jakobsdóttir alþingismaður og makker hennar urðu á dögunum fyrstu konurnar til að ganga í Hið íslenska töframannagildi. Hún hefur stundað töfrabrögð frá háskólaárunum og hefur meðal annars unnið það afrek að brjóta úr forsætisráðherra – og gera það heilt á nýjan leik.

Það er rétt, við makker minn, Halldóra Björt Ewen, vorum boðnar á fund hjá hinu Íslenska töframannagildi á dögunum og erum orðnar meðlimir í félaginu, fyrstar kvenna,“ staðfestir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Hún kveðst líta á sig sem áhugatöframann og því hafi það verið mikill heiður að vera boðin á fundinn. „Við erum ekki með háskólagráðu í töfrabrögðum, þetta er meira hobbí.“

Þær stöllur hafa í hálfan annan áratug æft og sýnt töfrabrögð, aðallega í prívat samkvæmum. Mjög prívat samkvæmum, til að gæta allrar nákvæmni. „Ætli opinberasta samkundan hafi ekki verið árshátíð Stjórnarráðsins. Sá gjörningur myndi í fræðunum líklega vera skilgreindur sem „comedy magic“,“ segir Katrín.

Hamrar, sagir og lensur

Spurð um eðli töfrabragðanna svarar Katrín af varúð. „Án þess að gefa upp of mikið felst aðalgrínið í því að við tölum þýsku og fremjum töfrabrögð. Það gerir þetta dálítið skemmtilegt.“

Þegar gengið er á hana staðfestir Katrín að þær séu mest í stórkarlalegum töfrabrögðum. „Við höfum verið töluvert með hamra og sagir og einu sinni einhvers konar lensu. Við erum minna í þessu klassíska, eins og spilagöldrum og snærum. Á árshátíð Stjórnarráðsins brutum við úr forsætisráðherra og gerðum það heilt á nýjan leik, svo dæmi sé tekið. Þetta er meira til gamans gert en nokkuð annað.“

Katrín og Halldóra voru ekki beðnar um að sýna töfrabrögð á fyrsta fundi hjá Hinu íslenska töframannagildi en það stendur til í haust. „Eftir það verðum við kannski reknar úr félaginu aftur,“ segir hún og skellir upp úr. „Við höfum sumarið til að æfa okkur og hanna ný brögð fyrir þá stund sem líta má á sem einskonar inntökupróf. Pressan er strax farin að þyngjast. Sérstaklega eftir að við fengum innsýn í heim annarra íslenskra töframanna á fundinum.“

Spurð hvort ekki hefði borgað sig fyrir hana að ganga í Hið íslenska töframannagildi áður en hún settist í ríkisstjórn á sínum tíma svarar Katrín því til að töfrabrögðin séu af öðrum heimi en stjórnmálin. Og þó? „Ég get staðfest að á einni sýningu losuðum við um gjaldeyrishöftin og fengum mikið magn gjaldeyris fyrir örfáar íslenskar krónur. Kannski eru töfrabrögð og pólitík bara nátengd?“

Hún hlær.

Biðu fram yfir kosningar

Jón Víðis Jakobsson, forseti Hins íslenska töframannagildis, segir félagið hafa haft augastað á Katrínu og Halldóru um nokkurt skeið. „Við vissum að þær hefðu verið að fremja töfrabrögð og meðal annars brotið úr Jóhönnu Sigurðardóttur og sett það saman aftur. Við biðum hins vegar fram yfir síðustu alþingiskosningar með að bjóða þeim á fund enda hefur Katrín líklega haft í nógu að snúast meðan hún var ráðherra,“ segir Jón Víðis.

Hið íslenska töframannagildi hefur verið karlaklúbbur fram að þessu og Jón Víðis segir feng í fyrstu konunum. „Við vitum að fleiri konur hafa verið að fást við töfrabrögð og vonandi verður þetta þeim hvatning. Það er löngu tímabært að konur fái annað hlutverk á töfrasýningum en að vera sagaðar í sundur,“ segir hann hlæjandi.

Hann segir inntökuskilyrði í félagið ekki ströng, nóg sé að hafa brennandi áhuga á töfrabrögðum.

Haustið 2006 hófu tveir töframenn undirbúning að stofnun félags fyrir töframenn á Íslandi. Það voru þeir Jón Víðis Jakobsson og Gunnar Kr. Sigurjónsson.

Stofnað á degi sem ekki er til

Til að verða löglegur hringur í International Brotherhood of Magicians (IBM) þurftu þeir að finna minnst tíu töframenn. Það gekk svo vel að stofnfélagar Hins íslenska töframannagildis voru 12 talsins. Það voru þeir Jón Víðis Jakobsson, Gunnar Kr. Sigurjónsson, Baldur Brjánsson, Valdemar Gestur Kristinsson, Björgvin Franz Gíslason, Lárus Guðjónsson, Magnús Böðvarsson, Pétur Finnbjörnsson, Pétur Þorsteinsson, Bjarni Baldvinsson, Sigurður Helgason og Ingó Geirdal. Í dag eru félagsmenn á þriðja tug talsins.

Stofnfundur var haldinn 29. febrúar 2007, dagsetning sem í raun og veru er ekki til og fyrsta stjórn HÍT var kjörin. Þá um haustið var haldin heilmikil töfrasýning í húsnæði Hafnarfjarðarleikhússins, Töfrakvöld HÍT. Síðan þá hafa töfrakvöld HÍT verið árviss og alltaf í byrjun vetrar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert staðráðin/n í að koma hlutunum í verk í dag. Sýndu öðrum þolinmæði og reyndu að sýna meiri skilning og umburðarlyndi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert staðráðin/n í að koma hlutunum í verk í dag. Sýndu öðrum þolinmæði og reyndu að sýna meiri skilning og umburðarlyndi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir