Raunveruleikastjarnan og fyrirsætan Kendall Jenner er tilbúin að yfirgefa Keeping Up With The Kardashians þættina til að einbeita sér að fyrirsætuferlinum.
Fyrirsætan hefur komið fram í raunveruleikaþáttum ásamt fjölskyldu sinni frá unga aldri og ætti því að vera vön myndavélum og athygli. Systur hennar lifa fyrir þættina en Kendall hefur meiri áhuga á fyrirsætustarfinu að eigin sögn.
„Já ég myndi líklegast gera það,“ sagði hin 17 ára Kendall þegar hún var spurð hvort að hún myndi frekar velja fyrirsætuferil fram yfir sjónvarpsferil. Kendall telur þættina stundum vera sér til trafala. „Ég held að sumt fólk taki mig ekki alvarlega. Þegar ég byrjaði að sitja fyrir þá var litið á mig sem einhvern persónuleika frekar en fyrirsætu, það er ekki það sem ég vil.“
Kendall setur markmiðið hátt og stefnir á hátískuna. „Ég vil meiri hátísku, og fleiri myndaþætti í tískutímaritum, vonandi næ ég að sanna mig.“
Þrátt fyrir að Kendall myndi íhuga að gefa KUWTK þættina upp á bátinn þá finnur hún fyrir miklum stuðningi frá fjölskyldu sinni. „Fjölskyldan mín veit hvað ég vil gera og þau hafa alltaf stutt við bakið á mér.“