„Það hefur oft verið sagt við mig að við séum tvífarar,“ segir Júlíus Pétur Guðjohnsen, en mbl.is hefur eftir öruggum heimildum að Júlíus hafi verið tekinn í misgripum fyrir leikarann Ryan Gosling þegar Júlíus lenti í aftanákeyrslu í gær.
„Ég var bara á leiðinni í jarðarför þegar þetta gerðist, í jakkafötum og með sólgleraugu og keyri aftan á bíl. Við bræðurnir stöndum þarna fyrir utan bílinn og ræðum við konuna og manninn sem voru að keyra bílinn í einhverja stund, við skiptumst á númerum og við förum svo í jarðarför ömmu minnar.“
Bróðir Júlíusar, Viðar Guðjohnsen, tekur undir með honum. „Hann er mjög líkur honum. Jakkafötin hafa örugglega ýtt undir það. Ég hef heyrt mjög oft að fólk segi að hann líkist mjög Ryan Gosling. Hann er reyndar miklu hærri en hann, held ég, ég efast um að Gosling sé 1,96 á hæð eins og bróðir minn.“
Júlíus segir að þegar hann kenndi í menntaskóla hafi stelpur oft sagt að hann væri líkur leikaranum. „Mamma hefur sagt það sjálf að við séum líkir. Sjálfum finnst mér við ekkert líkir, en ég heyri þetta mjög oft og auðvelt að trúa að einhver rugli okkur saman þegar ég er svona uppstrílaður,“ segir Júlíus. „Ég heyri þetta mjög oft og því hefur meira að segja verið póstað á facebookvegginn hjá mér,“ segir Júlíus.
Mbl.is biður lesendur sína - og Ryan Gosling - afsökunar á þessum misskilningi.