Harry Bretaprins kallar ekki allt ömmu sína. Hann naut ekki þægindanna í höll konungsfjölskyldunnar í nótt, heldur svaf svefni hinna réttlátu í tjaldi í frystigámi. Prinsinn heldur innan skamms á suðurpólinn og var nóttin liður í æfingaferlinu sem dró hann m.a. til Íslands.
Suðurpólsleiðangurinn verður á vegum góðgerðarsamtakanna Walking with the Wounded. Harry prins er velgjörðarmaður samtakanna og ætlar sjálfur að taka þátt í leiðangrinum, sem farinn er að frumkvæði hermanna sem særðust í Afganistan.
Í júlí í sumar kom Harry til Íslands til æfinga á Langjökli fyrir leiðangurinn.
Lagt verður af stað í nóvember og munu þeir ganga yfir 300 km leið. Frystigámurinn þar sem hópurinn svaf í nótt er sagður líkja eftir aðstæðum á suðurpólnum, en þar var -35°C frost.
Harry henti gaman að öllu saman, eins og honum einum er lagið, þegar þeir fóru á fætur í morgun en viðurkenndi að nóttin hefði verið köld. Hann sagði þó að erfiðast hefði verið að taka skrefið og fara inn í gáminn.