Framleiðslufyrirtækið ZikZak hefur tryggt sér réttinn á leikritinu Harmsögu eftir Mikael Torfason. Verkið var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu síðasta föstudag.
Leikstjóri verksins verður Þór Ómar Jónsson sem frumsýndi fyrr á þessu ári sína fyrstu kvikmynd, Falskur Fugl, sem byggðist á skáldsögu eftir Mikael Torfason.
„Harmsaga er ótrúlega mögnuð saga og Mikael hefur unnið í þessu verki lengi og handritið er nánast tilbúið,“ segir Þór Ómar Jónsson í tilkynningu.
Hann bætir því við að hann eigi von á því að leikurunum Elmu Stefaníu Ágústsdóttur og Snorra Engilbertssyni verði boðin aðalhutverkin.
„En auðvitað er það sagt með þeim fyrirvara að ekki er búið að ráða í nein hlutverk eða ræða við leikara. Kvikmyndahandritsskrifin hafa verið styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands og nú er handritið að komast á það stig að hægt er að fara að vinna í fjármögnun,“ segir Þór Ómar enn fremur.
Það eru þau Þórir Snær Sigurjónsson og Nanna Kristín Magnúsdóttir sem framleiða kvikmyndaútgáfu Harmsögu fyrir hönd ZikZak.