Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að Hungurleikastjarnan og Óskarsverðlaunahafinn Jennifer Lawrence sé orðuð við hlutverk í kvikmynd um sögu Agnesar og Friðriks, síðasta fólksins sem tekið var af lífi hér á landi árið 1830.
Kvikmyndin yrði gerð eftir bók ástralska rithöfundarins Hönnuh Kent, Burial Rites. Í frétt Examiner segir að vonast sé til þess að Gary Ross, sem leikstýrði Hungurleikunum, leikstýri myndinni um Agnes og Friðrik.
Í mars 1828 myrtu þau Sigríður Guðmundsdóttir, Agnes Magnúsdóttir, vinnukona á Illugastöðum, og Friðrik Sigurðsson frá Katadal Natan Ketilsson. Agnes og Friðrik voru hálshöggvin 12. janúar 1830 og var það síðasta aftaka Íslandssögunnar.