Harry Bretaprins tók sig vel út í einkennisbúningi í dag, þegar hann fylgdist með hersýningu í höfninni í Sydney. Þetta er fyrsta opinbera heimsókn Harry til Ástralíu, í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því Ástralía varð sjálfstætt sjóveldi.
Prinsinn klæddist hvítum og gylltum herklæðum og bar bláan hatt á höfði þegar hann virti fyrir sér ástralska flotann. Tugþúsundir áhorfenda voru í höfninni í Sydney vegna hersýningarinnar, en sumir voru reyndar fyrst og fremst komnir til að berja prinsinn augum.
„Búningurinn hans var mjög flottur og herkveðjan geðveik,“ sagði hin 19 ára gamla Ayesha Sweeney við blaðamann Afp. Hún ferðaðist 450 km, frá smábænum Albury, til þess eins að sjá prinsinn vinsæla.
„Hann er svolítið sætur, ég held að allir séu skotnir í honum. Allar stelpurnar hrópuðu og blístruðu þegar hann birtist.“
Lögreglan í Sydney þurfti að fjarlægja a.m.k. einn ungan aðdáanda prinsins, það var hin tvítuga Victoria McRae sem þótti fara fullnálægt Harry þegar hún reri á kajak upp að honum með flagg sem á stóð „Ég elska þig, Harry“. Farsímanúmer hennar fylgdi með fyrir neðan.
Harry prins er sennilega einn eftirsóttasti piparsveinn heims. Hann er þó sagður vera að hitta stúlku þessa dagana, 24 ára enska aðalsdömu sem heitir Cressida Bonas.
Margar ástralskar stúlkur hafa eflaust öfundað forréttindastöðu dætra forsætisráðherra landsins, Tony Abbott, því að hersýningunni lokinni var Harry boðinn til hátíðarkvöldverðar með fjölskyldu forsætisráðherrans. Þær eru 20 og 22 ára gamlar.