Taílensk stjórnvöld greindu frá því í dag að þau hefðu handtekið eiganda klámbúllu eftir að bandaríska söngkonan Rihanna skrifaði um stað hans á Twitter.
Eigandi búllunnar á Phuket eyju hefur verið ákærður fyrir að bjóða upp á lostafullar sýningar á stað sínum, að sögn lögreglustjórans á eyjunni, Veera Kerdsirimongkol.
Lögreglustjórinn segir að maðurinn hafi verið handtekinn í kjölfar skrifa Rihanna og að betur verði fylgst með sýningum af þessu tagi á eyjunni. Ummæli Rihanna hafa komið taílenskum ferðamálayfirvöldum illa en hún skrifaði meðal annars að hún hafi séð konu draga lifandi fugla, skjaldbökur, rakvélablöð og ýmislegt fleira út úr kynfærum sínum. Rihanna ritaði ummælin á Twitter þann 20. september sl. en alls eru rúmlega 32 milljónir sem fylgjast með henni á Twitter.
Í síðasta mánuði voru tveir menn handteknir fyrir vörslu dýra í útrýmingarhættu eftir að Rihanna birti mynd af sér með tvo prímata sem eru í útrýmingarhættu á djamminu á Phuket eyju þar sem hún var á tónleikaferðalagi í síðasta mánuði.
Samkvæmt upplýsingum frá dýraverndunarsamtökum eru mæður prímatana oft drepnar svo hægt sé að stela ungunum og sýna ferðamönnum í Taílandi. Eins eru tennurnar fjarlægðar úr þeim svo minni hætta sé á að þeir bíti ferðamenn.