Fyrrum boxarinn Mike Tyson er um þessar mundir að gefa út sjálfsævisögu sína, „Undisputed truth.“ Þar kemur meðal annars fram að hann hafi notast við þvag frá öðrum en sjálfum sér, og gervilim til þess að gabba lyfjaeftirlitsmenn, því sjálfur neytti hann ólöglegra lyfja. Mike Tyson er yngsti heimsmeistari í boxi allra tíma, í þungaviktarflokki.
Hann segir í bókinni að í nokkrum af sínum stærstu bardögum hafi hann verið á ólöglegum lyfjum. Hann lýsir því þegar hann barðist gegn Lou Savarese í Glasgow árið 2000. „Ég var með falskan getnaðarlim sem ég gat fyllt af þvagi frá aðstoðarmanninum mínum.“
Á sama ári var mældist hins vegar maríjúana í þvagi hans eftir bardaga hans gegn Andrew Golota í Detroit. „Það var vegna þess að mér tókst ekki að ná í gerviliminn í tækja tíð fyrir lyfjaprófið,“ skrifar Tyson í bókinni.
Hann segir einnig frá barnæsku sinni, en hann prófaði fyrst kókaín 11 ára að aldri, og fyrst smakkaði hann áfengi sem smákrakki.
Tyson hefur lengi glímt við áfengisfíkn auk þess sem hann hefur rambað á barmi gjaldþrots í mörg skipti. Hann segist í bókinni ekki hafa neitt vit á peningum, og að það sé meðal annars ástæðan fyrir fjárhagslegum erfiðleikum hans. „Ein kona hótaði einu sinni að kæra mig eftir að hafa verið bitin af tígrísdýri í minni eigu, þannig að ég borgaði henni 250 þúsunda bandaríkjadali því ég vorkenndi henni svo mikið.“