Eins og mbl.is greindi frá á sunnudaginn lést leikarinn Paul Walker í bílslysi í Kaliforníu um helgina. Walker var farþegi hjá vini sínum, Roger Rodas, í Porsche Carrera GT-bíl sem lenti út af vegi á miklum hraða.
Walker og Rodas virðast hafa misst meðvitund við slysið. Nærstaddir, þar á meðal átta ára gamall sonur Rodas, reyndu að koma þeim til hjálpar en mikill eldur blossaði upp í bílnum sem kom í veg fyrir að nokkur kæmist nærri. Vegfarendur reyndu þá að slökkva eldinn með handslökkvitækjum, en án árangurs.
Þrátt fyrir að ekki sé talið að félagarnir hafi verið í kappakstri þegar slysið varð, hefur Mail Online eftir vitnum að þeir hafi verið í spyrnu rétt áður. Vegfarendur telja að þá hafi bíll þeirra verið á allt að 160 km hraða.
Nú er meðal annars rannsakað hvort stýrisvökvi hafi lekið úr bílnum og bílstjórinn því misst stjórn á honum.
Fjölmargir hafa lagt leið sína að slysstaðnum til að votta hinum látnu virðingu sína, þar á meðal rapparinn og meðleikari Walkers, Tyrese Gibson.
Um helgina lak á netið atriði úr bíómyndinni Fast & Furious 7, þar sem persónur Gibsons og Walkers eru staddar í jarðarför. Gibson segir Walker: „Lofaðu mér einu, bróðir, ekki fleiri jarðarfarir,“ og Walker svarar: „Bara ein í viðbót.“
Smelltu hér til að skoða myndir frá slysstaðnum, þar sem meðal annars sést hversu illa leikinn bíllinn er. Rétt er að vara viðkvæma við myndunum.