Neikvæðar fréttir of vinsælar hjá miðlum

Einar K. Guðfinnsson og Tolli.
Einar K. Guðfinnsson og Tolli. Rósa Braga

Myndlistarmaðurinn Tolli Morthens hefur mikinn áhuga á kærleikanum sem hann veit að býr í hverjum og einum. Hann hvetur fólk til að virkja þá jákvæðu orku sem er í kærleikanum til að stuðla að breyttu og betra samfélagi sem fyrir vikið yrði fullt af hamingju. Nýlega kom Kærleikshandbókin út og hana myndskreytti Tolli. Bókin kennir meðal annars hvernig maður gengst við sjálfum sér.

Choden heitir maður sem komið hefur hingað til lands og í samstarfi við Rob Nairn haldið námskeið í hugleiðslu og kennt að frumkvæði Hugleiðslu- og friðarmiðstöðvarinnar. Choden er búddamunkur sem upprunalega kemur frá Höfðaborg í Suður-Afríku en býr í Bretlandi. Tolli hefur sótt námskeið Chodens og heillaðist mjög af því sem hann kennir en sjálfur hefur hann stundað hugleiðslu um margra ára skeið. Tolli er maður kærleikans og er umhugað um að allir geti öðlast sátt og ró hugans og þannig gefið af sér kærleika.

Kærleikshandbókin byggist meðal annars á kenningum úr búddisma og er komin út í þýðingu Árna Óskarssonar. Stríðsmenn andans gefa hana út.

Kærleikur til alþingismanna

Í gær fór Tolli og gaf öllum alþingismönnum eintak af bókinni og var vel tekið á móti honum.

„Það að þingið skuli sýna því velvilja að taka á móti mér í þessum erindagjörðum, hefur ekkert með fígúruna mig eða bókaútgáfuna sem slíka að gera, heldur erum við sammála um það að skilaboðin í því að veita Kærleikshandbókinni viðtöku séu þau að samfélagið þarf á samkennd og kærleika að halda,“ segir Tolli.

Hann segir ennfremur að allur heimurinn þurfi á kærleikanum að halda en sérstaklega samfélög sem farið hafa í gegnum ýmsar raunir eins og það íslenska sem er að vinna úr hruni.

Gremja, reiði og tortryggni skulu víkja

Ýmsar kenndir bærast með fólki í samfélagi sem hefur umpólast á sama hátt og það íslenska og ekki eru allar kenndirnar til þess fallnar að byggja upp.

„Við þurfum að vinna okkur upp úr gremju, reiði, tortryggni og öðru sem hefur verið mjög áberandi vegna þess að það viðhorf á greiðari aðgang að fjölmiðlum heldur en kærleikurinn. Jákvæðar fréttir eiga ekki eins greiðan aðgang að fjölmiðlum og neikvæðar fréttir því neikvæðu fréttirnar hafa oft yfir sér greindarlegra yfirbragð. Það er eins og þar sé á ferðinni eitthvað mikilvægara og að þar fái hin gagnrýna hugsun sitt pláss. Það á að vera merki um að einhver greind eða jafnvel gáfur séu á ferðinni,“ segir Tolli og bendir á að það sama eigi við um manninn og fjölmiðlana:

„Reiði og gremja eiga auðveldari aðgang að huga okkar og hegðun heldur en jákvæð hegðun.“

Hinn frumstæði mannshugur

Í bókinni er kafað djúpt í það af hverju neikvæðnin á greiðari aðgang að huga okkar og fjallað er ítarlega um neikvæð geðbrigði mannsins.

„Neikvæð geðbrigði mannsins eru hluti af gamla varnarkerfinu og allt eru þetta eðlilegir þættir í því að vera manneskja. Að vera reiður, gramur og óttasleginn er allt hluti af því að vera ég. Allt eru þetta kenndir sem búa í heilanum og maðurinn hefur þróað með sér í milljónir ára og svona fæðumst við,“ segir Tolli um geðbrigðin.

Afleiðingasamfélagið

Þar sem við fæðumst svona segir Tolli nauðsynlegt að þjálfa með sér einhvers konar lífsfærni til að takast á við neikvæðnina.

„Við lifum svo mikið í afleiðingasamfélagi. Menn fara ekki og framkvæma neitt fyrr en það er orðið afleiðing af einhverju öðru. Þá á ég við að við erum alltaf svo mikið að vinna í harminum, vinna í því að illa hefur farið í stað þess að skoða orsakirnar og reyna að lifa fyrirbyggjandi lífi og ábyrgðarfyllra lífi. Þar sem við tökum ábyrgð á því hvað leiðir til hamingju og hvað ekki.“

Eitt af því er að vera upplýstur um að öll erum við gædd þeim eiginleika að búa yfir kærleika.

„Kærleikurinn er óþrjótandi uppspretta skilyrðislausrar orku sem er það besta sem við höfum aðgang að til að verða hamingjusöm. Oft er sagt að innra með manni búi allt sem þarf til að gera einn mann hamingjusaman,“ segir Tolli.

Samkvæmt þessu ættu allir, sama hverjar ytri aðstæður eru, að geta verið hamingjusamir. Þrátt fyrir að ýmsir þættir geti haft áhrif á hvernig fólki líður ættu allir með einhverju móti að geta fundið kærleikann og þar með hamingjuna.

Stórkostleg tilfinning

Tolli þekkir vel þá tilfinningu sem kemur fram þegar hjartað er barmafullt af kærleika.

„Þegar maður framkallar þessa tilfinningu, kærleikann, þá finnur maður fyrir mikilli vellíðan. Henni fylgir líka hugarró og hugarrónni fylgir skýr hugsun og hegðun því við erum miklu meira við sjálf í þessari orku heldur en þegar við dveljum í erfiðari orku þar sem reiðin er.“

Sama segir Tolli eiga við um fjölmiðla eins og áður var komið inn á. Þar segir hann neikvæðu orkuna eiga mun greiðari aðgang að umfjöllun í samfélaginu en jákvæð umfjöllun.

„Það er eins og að hinni akademísku hugsun finnist afleiðingarnar áhugaverðari en að skoða orsakir eða fyrirbyggjandi hluti. En á meðan við glímum við svona erfiða orku í okkar samfélagi er auðvitað fullt af jákvæðum hlutum að gerast. Fullt af fólki, hópum og einstaklingum í samfélaginu eru markvisst og ómeðvitað að þróa með sér jákvæðan lífsstíl og læra að taka ábyrgð á því sjálf hvernig þau geta orðið hamingjusöm,“ segir Tolli.

Hann er nokkuð viss um að efnishyggjan sé á undanhaldi og andleg gildi séu að koma inn.

Kærleikur í fangelsum

Kærleikurinn ætti ekki að tengjast einhverjum trúarbrögðum eða einhverjum sérstökum aðstæðum heldur ætti hann að vera drifkrafturinn í hinu daglega lífi fólks þar sem allir búa yfir kærleika. Líka þeir sem hafa gert eitthvað misjafnt um dagana og það veit Tolli mætavel enda einn af fastagestunum á Litla-Hrauni en það kemur til af góðu einu.

„Ég vinn mikið í neðsta kjarnanum á lótusblóminu, sem eru fangelsin,“ segir hann. „Það kemur til af tólf spora vinnu minni. Þá er ég hluti af sjálfboðaliðateymi sem vinnur í fangelsunum.“ Þetta hefur Tolli gert í frítíma sínum ásamt fleira góðu fólki síðastliðin átta ár. Síðustu fjögur ár hefur hann lagt mesta áherslu á hugleiðsluþáttinn. „Ég kenni föngum hugleiðslu og er líka með stutt námskeið í jóga, fyrirlestra um orkustöðvar, hugleiðsluaðferðir, sjálfsnudd og fleira ásamt fagfólki. Í þessu er mikill heilunarkraftur og það er einmitt á þennan hátt sem við eigum að hjálpa þeim sem eru inni í fangelsum út af afleiðingum ofbeldis og fíknar,“ segir myndlistarmaðurinn Tolli Morthens sem er sannfærður um að ekki eigi að refsa fólkinu innan múra fangelsanna heldur að hjálpa því og þar leikur kærleikurinn eitt stærsta hlutverkið.

Kærleikshandbókin
Kærleikshandbókin
Alþingismenn veittu bókinni viðtöku í gær og segir Tolli að …
Alþingismenn veittu bókinni viðtöku í gær og segir Tolli að með því séu skýr skilaboð send út um að samfélagið þurfi á samkennd og kærleika að halda. Íslenskt samfélag þurfi á því að halda eftir hrunið. Rósa Braga
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ættir að eiga betra með að einbeita þér nú þegar þú hefur sett þér takmark. Sinntu því skyldum þínum af kostgæfni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ættir að eiga betra með að einbeita þér nú þegar þú hefur sett þér takmark. Sinntu því skyldum þínum af kostgæfni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio
Loka