Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur vakti athygli heimsfjölmiðla á minningarathöfn Nelsons Mandela í Suður-Afríku í dag. Thorning-Schmidt fékk sæti mitt á milli Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Ánægjan varð svo mikil að hún nýtti tækifærið til þess að taka „selfie,“ eða sjálfsmynd á símann sinn. Þeir kumpánar stilltu sér viljugir upp fyrir myndina og brostu sínu breiðasta.
Myndin af þeim þremur fór sem eldur í sinu um netheiminn og á twitter birtist fljótlega önnur mynd sem tekin á að hafa verið í kjölfarið á hinni. Þar hefur Barack Obama haft sætaskipti við eiginkonu sína, Michelle, sem virðist af svipnum að dæma hafa verið allt annað en ánægð með uppátæki eiginmannsins.
Orðið „selfie“ var nýverið valið orð ársins af orðabók Oxford háskóla. Aukningin í notkun orðsins í ár var 17000% frá því í fyrra.