Þingmaður les fréttamanni pistilinn

Brynjar Níelsson
Brynjar Níelsson Kristinn Ingvarsson

„Ekki vil ég halda magister Þorbirni í spennu í lengri tíma,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður og hæstaréttarlögmaður, á vefsvæði sínu og á þar við Þorbjörn Þórðarson, fréttamann á Stöð 2. Brynjar svarar í pistli sínum grein sem Þorbjörn skrifaði nýverið.

Í grein sinni sagðist Þorbjörn hafa hlustað á Brynjar í útvarpsviðtali lýsa því yfir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í Al-Thani-málinu væri rangur. Brynjar hafi hins vegar ekki fært lögfræðileg rök fyrir þeirri afstöðu en boðað lögfræðilega úttekt sem birt yrði á netinu.

„Þingmaðurinn ætti að taka sér meiri tíma til að fara yfir hlutina áður en hann tjáir sig. Því fullyrðing án röksemda er innantóm og í fjaðurvigt. Þingmenn vilja ekki vera í fjaðurvigt því þá tapa þeir trúverðugleika og er að lokum refsað í kosningum. Ef frammistaða þingmannsins hefði verið jafn máttlaus á prófi í refsirétti og í umræddu útvarpsviðtali þá hefði hann fallið á prófinu,“ sagði Þorbjörn meðal annars í greininni.

Brynjar skrifaði svo pistil í vefsvæði sitt í dag þar sem hann svarar Þorbirni. „Það er ekki nýtt að nýútskrifaðir lögfræðingar telji sig sérfræðinga, jafnvel þótt þeir hafi sjaldan eða aldrei í dómsal komið. [...] Nú kom annar slíkur, Þorbjörn Þórðarson, mag. jur og fréttamaður að auki og telur sig þurfa í grein á visir.is að kenna mér sitthvað um umboðssvik og sakamálaréttarfar. Ef einhverjir skyldu halda að latínutitillinn mag.jur sé einhver meiri menntun en gengur og gerist þá er ekki svo heldur þetta bara venjulegt meistarapróf í lögfræði.“

Hann segist hafa verið með nefið ofan í Al-Thani-málinu og öðrum svipuðum málum síðustu misseri, hafa haft aðgang að helstu gögnum og greinargerðum. Hann segist hins vegar vegna anna ekki hafa getað komist í að klára úttekt sína. „Í kjölfar uppkvaðningu dómsins um miðjan desember var þingmaðurinn áfram starfsbræðrum sínum og systrum nánast í sólarhringsvinnu við að bjarga þjóðinni eftir hörmungarstjórn árin á undan. Síðan komu jólin og síðustu daga hefur allur tími þingmannsins farið í glímu við sérfræðinga á sviði kristindóms. Þeir eru nefnilega víða sérfræðingarnir að sunnan.“

Brynjar lofar að lokum „Þorbirni Þórðarsyni, magister og fréttamanni því, að í þessari viku muni ég koma fram hér á Pressunni með athugasemdir við dóminn og rök fyrir því hvers vegna ég tel hann [dóminn] rangan.“

Þorbjörn Þórðarson.
Þorbjörn Þórðarson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar