Eigendur Empire State háhýsisins í New York í Bandaríkjunum hafa lagt fram kæru á hendur tískuljósmyndara sem tók myndir af berbrjósta konu á efstu hæð byggingarinnar. Farið er fram á 1,1 milljóna dollara skaðabætur fyrir verknaðinn, en það samsvarar rúmlega 127 milljónum íslenskra króna.
Krafa eigendanna byggir á því að Empire State sé vinsæll viðkomustaður fjölskyldufólks og að myndir ljósmyndarans, Allen Hensons, hafi því verið óviðeigandi. Myndirnar tók hann af bandarísku fyrirsætunni Shelby Carter og segir hann að þær hafi verið teknar þeim til skemmtunar.
Að auki segja eigendur byggingarinnar að Henson hafi ekki haft leyfi til myndatöku á þessum stað, en í samtali við BBC segir hann að fjöldi ferðamanna taki þarna myndir án þess að fá til þess sérstakt leyfi.