Kvikmyndirnar Gravity og 12 Years a Slave deila með sér verðlaunum sem mynd ársins að mati samtaka kvikmyndaframleiðenda, Producers Guild of America, og er þetta í fyrsta skipti í sögu verðlaunanna sem tvær myndir verða fyrir valinu.
Síðustu sex árin hefur myndin sem fær PGA-verðlaunin fengið Óskarsverðlaunin sem besta mynd ársins. Samkvæmt frétt Variety-tímaritsins hafa PGA-verðlaunin verið veitt í 25 ár. Myndirnar eru báðar tilnefndar til Óskarsverðlaunanna í ár.
Gravity er með tíu tilnefningar til Óskarsverðlauna líkt og American Hustle en verðlaunin verða afhent hinn 2. mars nk.
Sjónvarpsmyndin Behind the Candelabra með Michael Douglas og Matt Damon var einnig verðlaunuð á PGA-hátíðinni í Los Angeles í gærkvöldi sem og heimildarmyndin um WikiLeaks, We Steal Secrets.