Vefritið Kjarninn greinir frá því að svo virðist sem leikarinn Ólafur Darri Ólafsson hafi verið klipptur út úr sjónvarpsþáttaröðinni True Detective sem bandarísku Hollywood-stjörnurnar Matthew McConaughey og Woody Harrelson fara með aðalhlutverk í.
Stikla úr þáttunum þar sem Ólafur Darri kemur við sögu var sett á netið fyrir nokkrum vikum en Kjarninn bendir réttilega á að nafn Ólafs Darra sé nú hvergi að finna á lista yfir leikara þáttaraðarinnar á vefnum IMDb og að búið sé að breyta stiklum þáttanna.
„Ég er ekki í stóru hlutverki, mesta lagi tveimur þáttum,“ sagði leikarinn Ólafur Darri í samtali við Sunnudagsblaðið í nóvember síðastliðnum. „Ég hlakka mikið til að sjá þetta,“ segir íslenski stórleikarinn sem getur ekkert gefið upp um hlutverk sitt. „Ég get ekki svarað neinum svoleiðis spurningum – því miður.“
Frétt mbl.is: Ólafur Darri í bandarískum spennuþætti