Sumir kennarar kannast við að hafa heyrt sögur af mikilli matarlyst hunda þegar kemur að heimaverkefnum. Hundurinn Luce er þó öllu stórtækari.
Luce er fjögurra ára bresk Border Collie og Spaniel-blendingstík sem þar til nýlega var í eigu Royston Grimstead. Auk Luce átti Grimstead annan hund og auk þess 15 milljón króna Aston Martin-blæjubíl í innkeyrslunni.
Einn dag þegar Grimstead kom heim úr vinnu var Luce búin að naga annað frambrettið, sem er úr trefjaplasti, svo stórsá á bílnum.
Greimstead telur reyndar að hann hafi átt skemmdarverkið skilið. „Ég hafði áður auglýst eftir nýju heimili fyrir hana því henni semur ekki við hinn hundinn. Hún hlýtur að hafa heyrt mig tala um það, því hún er yfirleitt mjög vinaleg og hefur eiginlega aldrei nagað neitt áður,“ sagði Grimstead í viðtali við Bridgewater Mercury.
Luce hefur nú fengið nýtt heimili, og tryggingarnar bæta tjónið á bílnum.