Fimm heljarmenni í íslensku þungarokki ætla að koma saman og spila fyrstu plötu Metallica, Kill'em all, í heild sinni, hvorki meira né minna. Engum tóni verður sleppt, meira að segja bassasóló Cliffs heitins Burtons (Anesthesia) - Pulling Teeth verður með.
Kill'em all, fyrsta hljómplata Metallica, olli straumhvörfum í tónlistarheiminum og þá sérstaklega á sviði þyngra rokks. Þarna var lagður hornsteinn sem allir þungarokkarar heimsins hafa síðan hlaðið utan á, ýmist meðvitað eða ómeðvitað. Þótt það séu skiptar skoðanir um Metallica í dag ríkir einróma sátt um Kill'em all.
Nú á að heiðra þetta meistarastykki hér á Fróni. Fimm rokkarar ætla að sameina krafta sína og hræra í Kill'em all-rokkaragraut. Addi í Sólstöfum mun syngja, Bjarni úr Mínus og Bibbi úr Skálmöld ætla að sjá um gítarspilun, Flosi Þorgeirsson úr HAM plokkar bassann og Bjössi úr Mínus lemur húðir. Kalla þeir sig Melrakka.
„Við þekkjumst allir og höfum verið í þessum sama þungarokkspytti Íslands í mörg ár,“ segir Snæbjörn Ragnarsson Skálmeldingur, einnig kallaður Bibbi. „Mig grunar að hugmyndir að svona verkefnum kvikni mjög reglulega hjá tónlistarmönnum um allan heim þótt færri verði að veruleika. Þessi hugmynd bara einhvern veginn small rétt saman; góður mannskapur, tíminn hentaði vel og svoleiðis. Kill'em all er auðvitað sameiginlegt áhugamál og þess vegna er áhuginn nægur til að klára dæmið. Þetta var ein af þessum hugmyndum sem neita að deyja.“
Allir hljómsveitarmeðlimir hafa gengið gegnum lífið með Kill'em all í blóðinu. Eftir að hafa spilað saman á Eistnaflugi, þar sem meðal annars var slegið í Seek and Destroy af Kill'em all-plötunni, kviknaði löngun að spila meira saman. „Eftir þetta djamm kviknuðu raddir í þá átt að gera eitthvað fleira og kannski skipulagðara í þessum efnum. Þær raddir urðu síðan háværari á síðasta ári þegar 30 ár voru liðin frá útgáfu Kill'em all en sökum anna meðlima komst verkefnið ekki á koppinn fyrr en núna.
Við ætluðum auðvitað upphaflega að gera þetta í fyrra en við nennum ekki að bíða í fjögur ár í viðbót, fjandinn hafi það. Spurning hvort við höldum okkur ekki bara að verki og náum að taka Ride the Lightning (aðra plötu Metallica) á réttum tíma. Annars held ég að þetta skipti ekki nokkru máli, 30 ár eða 31. Þessi plata er svo gersamlega tímalaus og óðdauðleg að hún verður jafnfrábær eftir 301 ár.
Við verðum mjög trúir lögunum eins og þau eru á plötunni án þess þó að fara í einhverja eftirhermukeppni. Það má kannski segja að við séum að heiðra plötuna eins og hún hefur haft áhrif á hvern og einn okkar og menn bara taka þetta eftir sínu höfði án þess að fara langt frá upprunanum. Við erum búnir að hlusta svo mikið á þetta gegnum tíðina að við erum með þetta í blóðinu og þetta ætti að hljóma miklu nær 1983 en 2014,“ segir Bibbi en hann mundar gítarinn að þessu sinni í stað bassans eins og hann gerir í Skálmöld.
„Eins og stendur er Addi bara með sönginn þótt hann hefði auðvitað getað tekið gítarinn líka. Ég ætla rétt að vona að það breytist ekki því ég er að spila gítarinn hans Hetfields og mig langar að vera með,“ segir Bibbi og hlær.
„Verkefnið er samt einfalt: Spila plötuna í gegn á tónleikum fyrir þá sem vilja hlusta með tvennum tónleikum. Fyrst á Græna hattinum, Akureyri, föstudaginn 7. mars og svo á Gamla Gauknum í Reykjavík daginn eftir. Svo er bara að sjá hvort við höfum ekki elst aðeins öðruvísí en meðlimir Metallica. Við skulum allavega vona það.“