Leikstjórarnir Baltasar Kormákur, Benedikt Erlingsson og Friðrik Þór Friðriksson eru ósáttir við þá stöðu sem íslensk kvikmyndagerð er í. Þeir segja sífelldan niðurskurð til greinarinnar, skort á framtíðarsýn og fjármögnunarvanda hamla framþróun kvikmyndagerðar á Íslandi.
Þetta kemur fram í ítarlegri grein sem Ari Gunnar Þorsteinsson skrifar og birt er á vef Indiewire, en Ari var staddur á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í Svíþjóð, sem hófst 24. janúar og lauk 3. febrúar sl, og þar hitti hann leikstjórana.
Ari segir í greininni að íslensk kvikmyndagerð standi á krossgötum.
Hann eftir Friðriki Þór að staða íslenskra kvikmyndagerðarmanna hafi farið versnandi á undanförnum 30 árum. Hann segir að miðaverð hafi farið lækkandi og sífellt stærri hluti af verðinu renni til dreifingaraðila. Þá benti hann á að í annað sinn á fjórum árum hafi framlög ríkisins til kvikmynda verið skorið niður til 40%.
Í greininni er haft eftir Benedikt að þegar öllu sé á botninn hvolft þá „er íslensk kvikmyndagerð hörmung“ og að „við eigum í menningarlegu borgarastríði“. Hann óttast að staðan eigi lítið eftir að breytast til batnaðar.
Benedikt bendir á að helsti vandi ungra kvikmyndagerðarmanna sé fjármögnun. Þeir séu í pattstöðu, því ef þeir hafi ekki gert neitt þá vilji engin lána þeim fé.
„Það er ótrúlega erfitt að verða sér út um fjármögnun þegar allir bankar landsins eru gjaldþrota. Og ef þú reynir að fá auðugt fólk til að fjárfesta í áhættusamri starfsemi eins og kvikmyndagerð, þá komstu í raun að því á þeim tíma að hver og einn einasti auðkýfingur á Íslandi var glæpamaður,“ hefur Ari eftir Benedikt.
Baltasar Kormákur, sem vinnur nú að gerð Hollywoodmyndarinnar Everest, segist ekki hafa getað gert sínar fyrstu kvikmyndir á Íslandi án stuðnings. Án þeirra hefði hann ekki getað fengið vinnu erlendis.
„Nú er ég í þeirri stöðu að geta komið með tekjur inn í landið, t.d. þegar ég ætla að taka upp víkingamyndina mína á Íslandi,“ segir hann.
Þá greinir hann frá því, að það hafi staðið til að taka upp hluta Everest á Íslandi en mörg ljón hafi hins vegar verið í veginum og því varð ekkert úr því. Baltasar segir að stjórnvöld ekki standa sig nægilega vel.
„Ég væri að koma með milljarða króna - og ég er aðeins einn listamaður,“ segir Baltasar.
Þá segist hann vilja sjá stjórnvöld móta einhverskonar framtíðarsýn fyrir íslenska kvikmyndagerð. Það sé ekki hægt að vinna í umhverfi þar sem nýjar ríkisstjórnir taki við einvörðungu til að skera niður framlög, bæta svo örlítið í og skera svo aftur niður.
Hann segir mikla hagsmuni í húfi og bendir á það sem leikstjórinn Peter Jackson, sem er þekktastur fyrir þríleikinn um Hringadróttinssögu, gerði fyrir Nýja Sjáland.
„Þetta er ekki einhver útópía sem ég er að tala um - möguleikinn er beint fyrir framan dyrnar okkar,“ segir Baltasar.