Rapparinn René Pérez Joglar frá Púertó Ríkó er allt annað en ánægður með hvert hip-hop-senan stefnir. Joglar, sem er aðalmaðurinn í hinni margverðlaunuðu rappgrúppu Calle 13, segir peninga hafa náð tökum á listamönnum og nú snúist allt um græðgi og neysluhyggju.
Hann ákvað því að snúa vörn í sókn, prédika fyrir umbótum og byrja á því að taka til í sínum eigin garði, ef svo má að orði komast. Fyrsta skrefið var að ýta lúxusbifreið sinni fram af kletti.
„Ég keypti mér Maserati því ég féll sjálfur í gildru staðalímynda. Ég hélt að ef ég ætti flott hús og flottan bíl, þá þýddi það að ég hefði náð árangri í skemmtanabransanum,“ segir Joglar, sem er þekktur undir listamannsnafninu Residente.
„Þegar ég fór að nota bílinn fannst mér óþægilegt að eiga hann ... því ég áttaði mig á því að bíllinn stóð fyrir allt sem er rangt við samfélagið ... efnisleg gæði eru ekki það sem skiptir máli í lífinu.“
Það er allt gott og blessað, en til að vekja athygli á þessari hugljómun sinni fór Joglar með Maserati Quattroporte-bifreið sína (sem kostar ný frá 23 milljónum króna í Púertó Ríkó) að malarnámu, fékk útrás á henni með hafnaboltakylfu og lét hana svo vaða fram af kletti.
Þetta var allt fest á filmu og notað í tónlistarmyndband við lagið Adentro, en þar bregður einnig fyrir hafnaboltahetjunni Willie Mays.