Mikil er ábyrgð fósturdóttur Nóa

Kvikmyndin um örkina hans Nóa verður tekin til almennra sýninga víðast hvar í heiminum 27. og 28. mars. Dómar um myndina hafa þrátt fyrir það verið að birtast hér og þar undanfarna daga og virðast þeir eiga margt sammerkt, til að mynda vangaveltur um framtíð mannkyns eftir syndaflóðið.

Eins og flestum er vel kunnugt var kvikmyndin að stórum hluta tekin upp á Íslandi. Ekki er hægt að segja að hlutur Íslands í dómum Hollywood Reporter og Variety sé hins vegar stór, en hann er jákvæður. „Fjölbreytt skot af íslensku landslagi eru stórfenglegt baktjald framan af kvikmyndinni,“ segir í dómi Hollywood Reporter og Variety kemur inn á það að útlitið í Nóa sé ekki eins og í neinni annarri biblíusögu. „Mosagrænar fjallshlíðar og öskulegið flatlendi Íslands koma þar í stað eyðimerkur Mið-Austurlanda.“

Báðir miðlar hrósa einnig leik Russells Crowe í hástert og segir HR að hann minni helst á hans bestu verk í Skylmingaþrælnum, Innherjanum og Olnbogabarninu. Minna segir af öðrum leikurum myndarinnar annað en að Variety segir Jennifer Connelly hafa átt öruggan leik en að hún hefði mátt vera notuð meira í myndinni.

Dýrin sofandi á ferðalaginu

Báðir miðlar dást að tæknibrellum myndarinnar, í því sem HR kallar upprunalegu hamfarasöguna, sem komi við sögu í helstu trúarbrögðum. Einnig að Nói kalli á gagnrýni víða að, hvort sem það er vegna þess að ekki er í handritinu minnst einu orði á guð, vegna þess sem bætt er við upprunalegu söguna eða vegna áróðurs um vistfræðilegan dómsdag, s.s. vegna hlýnunar jarðar.

Burt séð frá öllum þessum atriðum sé kvikmyndin þess virði að veita eftirtekt og komi án efa til með að njóta mikillar hylli. Hollywood Reporter segist reyndar hafa viljað sjá meira til dýranna um borð í örkinni en þau sjást aðeins á leið sinni að örkinni, eftir að um borð er komið sofna þau öll og vakna ekki fyrr en við ferðalok. „En það verður að viðurkennast að er góð lausn á því vandamáli að skýra út hvernig dýrin gátu dvalið í örkinni í samlyndi.“

Spurningar um lífið eftir syndaflóðið

Annað atriði sem bæði Hollywood Reporter og Variety nefna er lífið eftir syndaflóðið. Síðarnefndi miðillinn greinir frá því að Emma Watson leiki munaðarlausa stúlku sem Nói og kona hans taka að sér sem barn, en heitbindur sig síðar elsta syni Nóa. „Hún þarf að takast á við þá líðan sína að hún eigi ekki skilið að verða brúður, sökum þess að hún er ófrjó. Það er skiljanlegt, svona í ljósi þess að nokkur þrýstingur er á henni að byggja með syni Nóa jörðina á ný,“ segir í Variety.

Í HR segir að sú spurning vakni óneitanlega upp hver það séu eiginlega sem eigi að byggja landið í kjölfar syndaflóðsins og vísað til þess að Nói og fjölskylda hans séu ein eftir í heiminum. „Monty Python á ábyggilega gott svar þessari spurningu.“

Enga stjörnugjöf er að finna í dómunum tveimur en þess má geta að þegar rétt tæplega eitt þúsund notendur Internet Movie Database hafa gefið Nóa einkunn stendur hún í 8,4, og á Rotten Tomatoes er hún með 67%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir