Örkin hans Nóa hefði getað flotið, eins og henni er lýst í Biblíunni, jafnvel með tvö dýr af öllum tegundum jarðar. Þetta er niðurstaða útreikninga vísindamanna við háskólann í Leicester.
Vísindamennirnir eru þó ekki alveg vissir um að dýrin hefðu öll komist fyrir en Örkin hefði þolað þunga um 70 þúsund dýra án þess að sökkva.
Rannsóknin og útreikningarnir voru gerðir með tilliti til lýsingar á Örkinni sem er í Fyrstu Mósebók, 6. kafla.
Samkvæmt Biblíunni fyrirskipaði Guð Nóa að smíða skip sem væri 300 álna langt, 50 álna breitt og 30 álna hátt. Nota átti gófervið (e. gopher) í skipið og bika það að utan sem innan.
Alin er gömul egypsk og hebresk mælieining og við útreikninga sína miðuðu vísindamennirnir, sem eru meistaranemar við skólann, við að hver alin væri 48,2 cm. Samkvæmt því var Örkin 144 m löng. Þá áætluðu þeir einnig meðalþyngd dýranna og margt fleira.
Miðað við alla þessa útreikninga var það niðurstaða vísindamannanna að Örkin hefði getað flotið með öll dýrin innanborðs.
Í frétt Telegraph kemur fram að verkefni Nóa hafi líklega verið að bjarga um 35 þúsund dýrategundum frá útrýmingu í syndaflóðinu mikla.
Ein breytan sem vafðist nokkuð fyrir vísindamönnunum var góferviðurinn sem nota átti í skipssmíðina. Ekki er með vissu vitað hvaða viðartegund er átt við í Biblíunni. Vísindamennirnir byggðu því útreikninga sína á því að Örkin hafi verið úr grátviði (e. cypress), en kenningar eru um að góferviður og grátviður séu eitt og hið sama.
„Maður telur Biblíuna ekki endilega vísindalega nákvæma svo að við vorum nokkuð undrandi er við uppgötvuðum að þetta hefði gengið upp. Við erum ekki að sanna að þetta sé rétt frásögn, en þetta myndi ganga,“ segir Thomas Morris, einn þeirra sem vann að rannsókninni í samtali við Telegraph.
Hins vegar er það allt annað mál hvort að öll þessi dýr hefðu komist fyrir inni í Örkinni.