Framlag Íslands í Eurovision er ekki talið líklegt til vinsælda hjá pistlahöfundi Daily Mirror, en hann gefur því aðeins tvær stjörnur og segir að lagið sé einstaklega pirrandi.
Tengir hann lag Pollapönks við barnaþætti BBC frá 1996 og líkir því við að vera fastur inni í huga ofvirks einstaklings á sama tíma og viðkomandi er að taka inn ofskynjunarlyf umvafinn litríkum blómaskreytingum hippatímabilsins.
Það er kannski rétt að taka fram að pistlahöfundurinn, Carl Greenwood, telur boðskap lagsins mjög góðan og að það sé laginu til framdráttar. Hann finnur laginu annars allt annað til foráttu og segist fordæma allar mínúturnar tvær og sekúndurnar 51 sem lagið taki í spilun.
Greenwood segir að það eigi ekki að taka á laginu með vettlingatökum, heldur eigi að senda það til baka með miklum krafti alla leið aftur í íslensku leikskólana þaðan sem það kom, en nokkrir meðlima Pollapönks eru leikskólakennarar.
Að endingu kemst hann reyndar að þeirri niðurstöðu að laginu geti fylgt ákveðin ánægja. Segir hann að möguleiki sé á að Vladímir Pútín, forseti Rússlands, muni heyra lagið og segist Greenwood sjá fyrir sér að Pútín gangi af göflunum þar sem einhver þjóð í Evrópu myndi gefa lagi, sem er á móti fordómum og passar ekki við hans eigin skoðanir, nokkur stig.