Sjerparnir færa þjóðinni björg í bú

Snjóflóðið mannskæða í Everest.
Snjóflóðið mannskæða í Everest. Buddhabir RAI

Tökum á kvikmyndinni Everest lauk á föstudaginn, en leikstjórinn Baltasar Kormákur segir að þær hafi verið feikilega erfiðar. „Þetta er sennilega það erfiðasta sem ég hef gert,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Á meðan tökum stóð varð mannskæðasta slys í sögu fjallsins en sextán sjerpar létust í snjóðflóðinu sem féll skammt frá grunnbúðunum á föstudaginn langa.

„Tökuliðið okkar var uppi í fjallinu, skammt frá snjóflóðinu, en það sakaði engan í okkar liði,“ segir Baltasar. Hins vegar varð slysið þess valdandi að ekki var mögulegt að komast upp á fjallið og klára tökurnar þar. Það verður því að bíða betri tíma.

Aðspurður segist hann vona að slysið muni ekki hafa mikil áhrif á gerð myndarinnar. „Það lítur allavega ekki út fyrir það í augnablikinu. Það á eftir að koma í ljós hvenær við komumst upp á fjallið aftur. Það er lokað eins og staðan er núna en við gerum ráð fyrir því að það muni opna fljótlega á nýjan leik,“ segir hann.

Þrjátíu sjerpar höfðu fylgt Baltasar

Handrit Everest er byggt á sannsögulegum atburði, þegar átta fjallgöngumenn fórust í aftakaveðri á hæsta fjalli jarðar, Everest, 11. maí árið 1996 en það var talið mannskæðasta slys sem orðið hafði á fjallinu, þangað til nú fyrir stuttu.

Þrjátíu sjerpar höfðu fylgt Baltasar og tökuliðinu frá því um áramótin. Þeir voru allir í tökum með honum í Róm og Lundúnum en voru farnir aftur til síns heima í Nepal áður en slysið varð. „Þeir voru allir á leið upp á fjall því tímabilið var í þann mund að byrja. Við vorum mjög fegin að heyra það að engan af þeim sakaði,“ segir hann.

Everest mesti auðurinn

Í kjölfar slyssins hefur mikil umræða átt sér stað um fjallgöngur af þessu tagi og hafa spjótin einkum beinst að vestrænum fjallgöngumönnum.

Baltasar bendir hins vegar á að mesti auðurinn sem íbúar Nepals eigi sé Everest-fjallið. Fjallamennskan afli stærsta hluta gjaldeyristekna landsins og hafi gríðarleg áhrif á efnahag þess.

„Sjerparnir sem starfa á Everest fá til að mynda tíu sinnum hærri laun en hinn venjulegi íbúi í Nepal,“ segir hann og bætir við: „Það má segja eins og með sjómennina, þetta er lífshættulegt starf en þeir færa hins vegar þjóðinni björg í bú. Það er hægt að horfa á þetta þannig í stað þess að mæta vestrænum fjallgöngumönnum með andúð,“ segir Baltasar.

Ferðaþjónustan blómstrar

„Þetta byrjaði með Edmund Hillary þegar hann kleif fjallið fyrstur manna. Þá var strax byrjað að styrkja skóla og ýmis verkefni á þessum slóðum. Síðan hefur ferðaþjónustan blómstrað og dafnað þarna.

Menn geta deilt um hvort fólk sé hrifið af því eða ekki, en þetta er það sem heldur lífinu í íbúunum að miklu leyti. Það eru ábyggilega fleiri sem deyja í Katmandú úr hungri heldur en á fjallinu,“ segir hann.

Baltasar segir að nú taki við mikil eftirvinnsla, svo sem klippingar, gerð stafrænna tæknibrellna og sitthvað fleira. „Það er mikið verk fyrir höndum,“ segir hann. Myndin verður síðan frumsýnd þann 18. september á næsta ári.

Baltasar Kormákur á tökustað í Nepal.
Baltasar Kormákur á tökustað í Nepal. Ljósmynd/Jasin Boland
Everest-fjall er það hæsta í heimi.
Everest-fjall er það hæsta í heimi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar