Óttarr Proppé, tónlistar- og alþingismaður, verður ekki á sviðinu í Kaupmannahöfn á föstudaginn þegar Pollapönk æfir framlag Íslands, No Prejudice, fyrir Eurovision í ár. Þarf hann að skjótast aftur til Íslands til að taka þátt í úrslitum spurningaþáttarins Útsvari fyrir hönd Reykjavíkur. Frá þessu er greint á facebooksíðu Pollapönks.
Fyrri undankeppnin fer fram nk. þriðjudag, 6. maí, og verður Ísland sjöunda landið til að stíga á svið það kvöld.
„Þetta eru harðir herrar hjá RÚV þegar maður er með puttana í mörgum pottum hjá þeim,“ segir Óttarr í myndskeiði sem birt er á facebooksíðunni. Flýgur hann aftur heim til Íslands á föstudaginn og aftur til Kaupmannahafnar á laugardag.
Óttarr segist vera búinn að finna tvífara sinn og mun hann standa á sviðinu í stað hans. „Hann er skeggjaður og það er tæplega sentímeters munur á okkur. Hann mun standa í minn stað. Ef hann er rétt klæddur og ber sig almennilega, þá munu tæknimennirnir ekki sjá neinn mun,“ segir Óttarr í myndskeiðinu.
Óttarr segir eins gott að hann „haldi kúlinu“, annars verði hann ekki ráðinn aftur.
Hér má sjá myndskeiðið
Hér má sjá lagið No Prejudice í flutningi Pollapönks