Blue-söngvarinn Lee Ryan hreytti út úr sér fúkyrðum að lögreglumönnum, áður en hann pissaði og ældi í fangaklefa, eins og greint var frá í dómsal á dögunum.
Söngvarinn var stöðvaður eftir að hafa keyrt óeðlilega og var í kjölfarið færður á lögreglustöðina, þar sem hann neitaði að blása í áfengismæli og reif kjaft við lögreglumann.
Þegar lögreglumennirnir bentu Ryan á að hann gæti fengið á sig ákæru ef hann hætti ekki að rífa kjaft, sagði hann þeim að drulla sér í burtu, samkvæmt heimildum Sky-fréttastofunnar.
Í kjölfarið var hann dæmdur sekur og þarf að greiða 626 þúsund krónur, einnig missir hann bílprófið í tvö ár þar sem hann neitaði að gangast undir áfengisprófið og auk þess þarf hann að borga rúmar 22 þúsund krónur fyrir skaðann sem hann olli fyrir að hafa migið í fangaklefann.
Hann var færður í járn í Ealing klukkan 05.30 að morgni 11. apríl, eftir að hafa fagnað afmæli eins hljómsveitarmeðlimsins Duncan James um nóttina.
„Lögreglumennirnir fundu áfengislyktina af honum um leið,“ sagði saksóknarinn Majit Mahal í dómsal og bætti við: „Aðspurður hvort hann hefði fengið sér áfengi um kvöldið svaraði Ryan því játandi.“
Lögreglumennirnir tóku eftir tómri flösku í vasa á bílstjórasætinu. Ryan var óstöðugur og hann talaði ekki eðlilega.
Söngvarinn sagði að þetta hefði gerst í kjölfar taugaáfalls sem hann fékk eftir gagnrýnina sem hann hafði fengið á sig á veraldarvefnum eftir að hafa tekið þátt í raunveruleikaþáttunum Celebrity Big Brother.