Atkvæðagreiðslur í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, fara gjarnan eftir ákveðnum rásum sem dyljast undir niðri en koma í ljós við ítarlega stærðfræðilega greiningu.
Stærð- og tölfræðingar við UCL og Imperial College í London hafa legið yfir atkvæðatölum úr keppninni síðustu 20 árin og dregið fram, að ólíklegt sé að tónlistarhæfileikar hafi mikið með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar að gera. Þó segja þeir ekki hægt að halda því fram að reglur keppninnar og atkvæðafyrirkomulag dæmi framlag Breta fyrirfram úr leik.
Stærðfræðigreiningin leiðir einnig í ljós, að það sé rangt hjá fjölmiðlum sem eiga til að halda fram eftir keppni, að fordómar segja hafi valdið víðtækum stuðningi við framlag vissra landa. Hollustan við þau byggist miklu fremur á menningu, landafræði, sögu og fólksfjöldaþróun. Þau atriði séu þó tiltölulega léttvæg og hvergi var að finna fót fyrir þeirri gagnrýni að keppnin hafi verið eyðilögð af blygðunarlausum fordómum og mismunun.
„Fólksflutningar virðist áhugaverð skýring á sumum atkvæðamunstrunum. Tyrkir virðast til að mynda fá háa einkunn hjá Þjóðverjum sem greiða atkvæði. Hugsanlega vegna mikils fjölda fólks sem flutt hefur frá Tyrklandi til Þýskalands og greitt þar atkvæði,“ segir Gianluca Baio við tölfræðivísindadeild UCL. „En við greiningu okkar var ekki að finna sannfærandi vísbendingar um neikvæða afstöðu eða mismunun af nokkru tagi gegn nokkrum - ekkert land á óvini í þessu.“
Baio og Marta Blangiardo við Imperial College, og samhöfundur hans að grein um stærðfræðigreininguna, sem birt er í nýjasta hefti tölfræðiritsins Journal of Applied Statistics, greindu hvernig einstök ríki hafa greitt atkvæði í Söngvakeppninni frá 1998 er almenningur gat tekið þátt með símakjöri.
Beittu þau formúlum stærðfræðinnar, m.a. Bayesia-líkaninu, á ýmsa vegu í rannsóknum sínum. Komu þá í ljós ríkjahópar, atkvæðablokkir, sem greiddu atkvæði svipað. Í ljós kom, og það í samræmi við niðurstöður annarra athugana, að atkvæði virðast hafa tilhneigingar til að falla innan fjögurra breiðra ríkjahópa sem virðast aðallega greiða atkvæði innbyrðis.
Einn þessara hópa mynda ríki fyrrum Júgóslavíu, Sviss og Austurríkis, annar nær yfir Mið- og Suður-Evrópu, sá þriðji - og öllu - stærri nær yfir austantjaldsblokkina fyrrverandi, Bretland, Írland og Norðurlönd og sá ríkjahópur klofnar handahófslega upp í tvær blokkir ár hvert.