„Fyrstu viðbrögð eru endalaus gleði og gríðarlegt þakklæti fyrir að fá að koma boðskap Pollapönks á framfæri,“ segir Arnar Gíslason, trommari í Pollapönki, framlagi Íslands í Eurovisionkeppninni, eftir að ljóst varð að Ísland verður meðal þeirra þjóða sem taka þátt í lokakeppninni á laugardag.
Eins og glöggir sjónvarpsáhorfendur sáu var Ísland tilkynnt síðast af þeim tíu þjóðum sem fóru áfram úr fyrri undankeppninni í kvöld. Arnar viðurkennir að hópurinn hafi verið farinn að efast um að komast áfram. „Ég ætla að ekki að neita því að menn voru farnir að efast. Við vorum alls ekkert vissir um að komast áfram fyrirfram. Ég vonaði það að sjálfsögðu en þegar það var bara eitt land eftir var ég farinn að búa mig undir að falla út. En þá hugsaði ég: Við áttum gott „run“ og það var fáránlega gaman að koma þessum boðskap á framfæri. Þá komum við upp úr þessu umslagi og ég varð gríðarlega glaður,“ segir Arnar.
Hann segir meginmarkmiðið hafa verið að koma skilaboðunum á framfæri. „Hefðum við ekki náð í úrslit hugsuðum við alltaf sem svo að það hafi verið frábært tækifæri að koma boðskapnum á framfæri. En núna höfum við endalaus tækifæri til að koma honum til enn fleiri. Því segjum við takk við alla,“ segir Arnar.