Conchita Wurst, sem söng framlag Austurríkis í Eurovision, sigraði í keppninni í ár með 290 stig. Wurst, sem er þekkt sem skeggjaða dragdrottningin, var með forystu í stigagjöfinni nánast frá upphafi.
„Þennan sigur tileinka ég öllum sem trúa á frið og frelsi,“ sagði Wurst þegar hún tók við verðlaununum.
Þetta er í fyrsta sinn í 48 ár sem Austurríki sigrar í keppninni. Holland varð í öðru sæti og Svíþjóð í þriðja.
Dragdrottningin Conchita Wurst er hugarfóstur listamannsins Toms Neuwirth. Hann tók þátt sem Conchita í X-Factor í Austurríki fyrir átta árum og hafnaði í öðru sæti.